Innlent

Þöggun á velferðarsviði

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Umboðsmaður borgarbúa kynnti áfangaskýrslu um starf umboðsmanns á fundi í gær. Samkvæmt skýrslunni er margt við starfsemi velferðarsviðs að athuga.
Umboðsmaður borgarbúa kynnti áfangaskýrslu um starf umboðsmanns á fundi í gær. Samkvæmt skýrslunni er margt við starfsemi velferðarsviðs að athuga. Fréttablaðið /Stefán
Það er fjölmargt við starfsemi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að athuga ef marka má áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa, Inga B. Poulsen, sem kynnt var á borgarstjórnarfundi í gær.

Embættinu var komið á laggirnar sem tilraunaverkefni í byrjun maí 2013 og nær skýrslan til 1. september á þessu ári. Á tímabilinu komu 423 mál til kasta embættisins, flest þeirra tengdust velferðarsviði borgarinnar eða 161.

Af málum sem komu til kasta velferðarsviðs er 111 lokið, 29 eru í vinnslu og 21 hefur verið sett á bið. Í skýrslunni kemur fram að strax í upphafi eftir að umboðsmaður tók til starfa hafi komið fram ítrekaðar athugsemdir við eitthvað sem megi kalla vinnustaðamenningu á velferðarsviði.

Umkvörtunarefni borgarbúa sem sneru að velferðarsviði hafi verið á sömu lund. Ofuráhersla væri lögð á fjárhagslegar hindranir og notendur þjónustu velferðarsviðs heyrðu oftar en ekki þau rök að að Reykjavíkurborg hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til að veita þá þjónustu sem óskað væri eftir.

„Þá bar einnig á góma mikil innri átök á vinnustaðnum. Talsverður samskipta- og stjórnendavandi væri til staðar sem hefði áhrif á þá þjónustu sem veitt væri á sviðinu,“ segir orðrétt í skýrslu umboðsmanns borgarbúa.

Fleiri umkvartanir koma fram í skýrslunni. Umboðsmaður segir að borgarbúar teldu sig upplifa litla virðingu fyrir málaflokknum og tortryggni í garð fólks sem nýtir sér þjónustu velferðarsviðsins. Talsverð hræðsla væri við afhjúpun mistaka sem leiddi af sér þöggun.

Til að mynda hafi nokkrir starfsmenn borgarinnar bent á að óheimilt væri að veita borgarbúum aðgang að verklagsreglum þrátt fyrir að synjun á umsókn hans væri byggð á þeim reglum.

Þá segir umboðsmaður að fram hafi komið ábendingar um stjórnskipuleg vandamál á velferðarsviði. Felist þær í því að miðstýring sé of mikil.

„Í stjórnskipulagsbreytingum þar sem þjónustumiðstöðvar voru færðar undir sviðið hafi miðstýring aukist og á sama tíma fjarlægð orðið milli þjónustumiðstöðva og skrifstofu velferðarsviðs.

Það hafi leitt af sér óskýr skil milli ábyrgðarhlutverka, óskýrari boðleiðir og takmarkað upplýsingaflæði milli stiga,“ segir umboðsmaður.

Talsvert hafi borið á kvörtunum þess efnis að áhersla sé lögð á gerð verklagsreglna á sviðinu. Verklagsreglurnar séu ósveigjanlegar, markmið þeirra sé oftar en ekki að komast hjá því að taka matskenndar ákvarðanir og þær séu yfirleitt túlkaðar of þröngt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×