Enski boltinn

Þó líði ár og öld er alltaf séns

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gleðin var mikil hjá utandeildarliði Lincoln eftir að það lagði Burnley að velli í bikarnum. Næst er það leikur á móti Arsenal eða Sutton.
Gleðin var mikil hjá utandeildarliði Lincoln eftir að það lagði Burnley að velli í bikarnum. Næst er það leikur á móti Arsenal eða Sutton. vísir/Getty
Í fótboltaheimi sem verður nær alltaf fyrirsjáanlegri og þeir sem borga mest - vinna mest hefur enska bikarkeppnin þessa leiktíðina verið sem ferskur andvari. Leicester auðvitað sýndi að rómantíkin lifir í fótboltanum á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni en nú er það utandeildarlið Lincoln sem er söguhetjan í nýju bikarævintýri.

Rauðu imparnir, eins og liðið er kallað, sem er á toppnum í utandeildinni, gerði sér lítið fyrir og lagði Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í úrvalsdeildarliði Burnley í 16 liða úrslitum enska bikarsins um liðna helgi. Lincoln varð með því fyrsta utandeildarliðið sem kemst í átta liða úrslit þessarar elstu og virtustu bikarkeppni heims í heil 103 ár. Þetta er einnig í fyrsta sinn í 133 ára sögu félagsins sem það kemst svona langt í bikarnum.

Bikarævintýri Lincoln hefur verið svakalegt en liðið er búið að vinna tvö lið úr B-deildinni á leið sinni í átta liða úrslitin áður en kom að sigrinum gegn Burnley sem er heilum 81 sætum fyrir ofan utandeildaliðið á Englandi og með þriðja besta heimavallarárangurinn í ensku úrvalsdeildinni. Í síðustu umferð vann það Brighton örugglega, 3-1, en það er toppliðið í næst efstu deild enska boltans.

Þarna undir liggur markaskorarinn og hetja Lincoln City.vísir/getty
„Landsliðsmaður“ skoraði

Lincoln var síst lakari aðilinn í leiknum en eina markið skorað Sean Raggett undir lokin. Raggett er 23 ára gamall varnarmaður sem kom til Lincoln frá Dover fyrir tímabilið. Hann var fyrir tveimur árum kallaður í enska landsliðið. Ekki alvöru enska landsliðið heldur enska C-liðið sem er utandeildarlið Englands.

Það eru alltaf margar svona skemmtilegar sögu í kringum þessi utandeildarlið sem ná árangri í bikarnum. Oftar en ekki eru smiðir og píparar í bakverðinum en Lincoln er reyndar lið sem ætlar sér stóra hluti á næstu árum og er á toppnum í utandeildinni á leið aftur inn í enska deildarkerfið. Knattspyrnustjóri liðsins, Danny Cowley, er þó ekki einu sinni með Wikipedia-síðu.

„Það þarf fótboltakraftaverk fyrir utandeildarlið að komast í átta liða úrslitin. Strákarnir voru frábærir. Við erum alltaf raunsæir. Ég myndi aldrei biðja strákana um að gera eitthvað sem þeir ráða ekki við en þeir fylgdu leikáætluninni og við gáfum Burnley alvöru leik,“ sagði sigurreifur Cowley við enska miðla eftir leikinn.

Danny Cowley fær kannski að stýra sínum mönnum á móti Arsenal.vísir/getty
Aldrei skipt máli

Lincoln er smálið sem hefur aldrei skipt máli í enska boltanum. Það náði sínuma besta árangri í sögunni árið 1902 þegar það hafnaði í öðru sæti næst efstu deildar en það hefur ekki komist ofar en í C-deildina síðan árið 1961.

Lincoln er það lið sem hefur eytt flestum leiktíðum í utandeildinni eða 104 og á flest föll að baki úr ensku deildakeppninni eða fimm. Þá er verið að tala um fall úr D-deild og niður í utandeildina. Síðast féll liðið árið 2011 og hefur verið í utandeildinni síðan þá.

Nú skiptir Lincoln heldur betur máli og sviðsljósið beinist að þessum bikarhetjum sem fá Arsenal í næstu umferð fari lærisveinar Arsene Wenger í gegnum hitt utandeildarliðið, Sutton, í kvöld. Það gæti reynst of stór biti fyrir Lincoln-menn en það héldu nú eflaust flestir líka þegar þeir mættu á Turf Moor.

Zlatan fagnar sigurmarki sínu.vísir/getty
Zlatan skorar og skorar

Manchester United tapar helst ekki leik þessa dagana og komst í átta liða úrslitin þegar liðið lagði Blackburn, 2-1, eftir að lenda marki undir í fyrri hálfleik. Zlatan Ibrahimovic er nú búinn að skora 24 mörk á tímabilinu með sigurmarkinu í gær. Hann er nú búinn að skora í bikarnum í fjórum löndum.

José Mourinho mætir á sinn gamla heimavöll í átta liða úrslitunum, Stamford Bridge, og þarf að finna leið til að leggja topplið ensku úrvalsdeildarinnar, Chelsea, að velli í næstu umferð. Síðast þegar United-menn mættu á Brúnna fengu þeir vænan skell.

Tottenham ætlar ekki að fara út fyrir Lundúnir í bikarkeppninni. Það fékk tvo heimaleiki til að byrja með og valtaði svo yfir Fulham, 3-0, í Lundúnarslag í gær. Spurs-liðið dróst svo á móti Millwall í átta liða úrslitunum á heimavelli en komist liðið áfram bíður þess ferð á Wembley í undanúrslitunum.

Wembley er í Lundúnum þannig Tottenham-liðið þarf ekki að kvarta yfir ferðalögum í bikarkeppninni þetta tímabilið.


Tengdar fréttir

Zlatan kom Man Utd til bjargar | Sjáðu mörkin

Zlatan Ibrahimovic kom Manchester United til bjargar gegn Blackburn Rovers í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á Ewood Park í dag. Lokatölur 1-2, United í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×