Erlent

Þjóðverjar útiloka óformlegar viðræður um Brexit

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Angela Merkel Þýskalandskanslari. Vísir/AFP
Talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar segir að engar óformlegar viðræður verði teknar upp við bresk stjórnvöld um Brexit, áður en Bretar hefji úrsagnarferli sitt með formlegum hætti.

BBC hefur talsmanninum að Bretum verði gefinn „sanngjarn“ tími til verksins, en að tryggja verði að útgönguferlið verði ekki að einhverju þrátefli.

Angela Merkel Þýskalandskanslari, Francois Hollande Frakklandsforseti og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, munu funda í Berlín síðar í dag þar sem tímarammi viðræðna vegna útgöngu Breta verður meðal annars til umræðu.

Meirihluti Breta greiddi atkvæði með útgöngu Breta út Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni í síðustu viku, þar sem 52 prósent greiddu atkvæði með útgöngu, en 48 prósent með áframhaldandi aðild.

Ef Bretar vilja yfirgefa Evrópusambandið þurfa þeir að virkja 50. grein ESB-sáttmálans, sem ekkert aðildarríki hefur áður gert. Það felur í sér að þeir óski formlega eftir því að hverfa á brott og sambandið þarf þá að hefja samningaviðræður um skilmálana.

Ekki einungis hafa bresk stjórnvöld ekki virkjað 50. greinina, heldur hafa þau ekki einu sinni lýst því yfir hvenær stefnt er að því að gera það. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt af sér sem forsætisráðherra og látið arftaka sínum það eftir að taka ákvörðunina. Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna sem margir telja líklegan eftirmann Cameron, hefur lýst því yfir að það liggi ekkert á að hefja viðræður.


Tengdar fréttir

Reyna að koma í veg fyrir Brexit

Milljónir Breta krefjast annarra kosninga um áframhaldandi viðveru Bretlands í Evrópusambandinu. Æðsti ráðherra Skotlands íhugar að beita neitunarvaldi gegn Brexit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×