Erlent

Þjóðverjar kalla eftir hertri vopnalöggjöf

Atli Ísleifsson skrifar
Þungavigtarmenn á þýska þinginu hafa kallað eftir hertari vopnalöggjöf í landinu í kjölfar árásarinnar á föstudag þar sem átján ára piltur skaut níu manns til bana og særði 27 í og í kringum verslunarmiðstöð í München.

Varakanslarinn og formaður Jafnaðarmannaflokksins, Sigmar Gabriel, segir nauðsynlegt að grípa til allra hugsanlegra aðgerða til að takmarka aðgengi að skotvopnum.

Hinn átján ára Ali David Sonboly beitti 9 mm Glock skammbyssu þegar hann banaði níu manns á föstudag áður en hann fyrirfór sér. Hann hafði rúmlega þrju hundruð skot í sínum fórum. Hann hafði ekki leyfi fyrir skotvopninu og ekki er vitað hvernig hann komst yfir það.

Innanríkisráðherrann Thomas de Maiziere mætti í gær á vettvang í München þar sem hann sagðist ætla að taka vopnalöggjöfina til endurskoðunar.

Í frétt BBC kemur fram að minningarathafnir hafi verið haldnar í München og víðar til að minnast hinna látnu, en sjö af fórnarlömbum Solboly voru á aldrinum fjórtán til tuttugu ára.

Árásin var gerð í Olympia Einkaufszentrum, stærstu verslunarmiðstöð Bæjaralands.

Gabriel segir að yfirvöld rannsaki nú hvernig Sonboly, sem var Þjóðverji af írönskum uppruna, hafi komist yfir skotvopn, þrátt fyrir að hafa sýnt merki um andleg veikindi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×