Menning

Þjóðlögin lifa með okkur

Magnús Guðmundsson skrifar
Gunnsteinn Ólafsson varði sumrunum á Siglufirði en er í dag listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar.
Gunnsteinn Ólafsson varði sumrunum á Siglufirði en er í dag listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar.
„Ég er fæddur á Siglufirði en alinn upp í Kópavogi. En ég var alltaf á Siglufirði á sumrin þannig að ég er víst svokallaður sumaralningur,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, listrænn stjórnandi og upphafsmaður Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði. En hátíðin hefur vaxið og dafnað allt frá stofnun enda bráðskemmtileg viðbót við bæði tónlistar- og ferðaflóru Íslendinga.

Gunnsteinn segir að upphaf hátíðarinnar megi í raun rekja allt aftur til þess þegar hann sneri heim úr sínu tónlistarnámi, en þá hafi hann meðal annars starfað sem leiðsögumaður fyrir norðan.

„Mér fannst vera brýn þörf á því að gera íslenskri þjóðlagatónlist hærra undir höfði og kom því að máli við Siglfirðinga með þá hugmynd að koma á laggirnar bæði þjóðlagasetri og þjóðlagahátíð. Bjarni Þorsteinsson bjó á Siglufirði og þar gaf hann út sitt þjóðlagasafn fyrir ríflega öld og því fannst mér að Siglfirðingum ætti að renna blóðið til skyldunnar með að sinna þessum mikilvæga arfi. Siglfirðingar tóku auðvitað undir það og komu svo aftur að máli við mig og fengu mig til verksins – svona hugmyndir rata þannig auðvitað aftur til upphafsins,“ segir Gunnsteinn og hlær.

„En Þjóðlagasetrið er orðið að veruleika í Maðdömuhúsi, þar sem séra Bjarni var búsettur, og hátíðin dafnar. Auðvitað er alltaf ákveðinn barningur að fjármagna svona hátíðir. En það er gaman að segja frá því að tónlistarmenn sækjast eftir því að koma og taka þátt, þannig að það margt spennandi í boði.

Að þessu sinni koma margir góðir gestir frá Norðurlöndunum og þar á meðal hópur tónlistarmanna sem ætlar að flytja tónlist frá tímum Ólafs helga Noregskonungs sem er mjög spennandi viðburður. Þá má ég til með að nefna bandaríska fiðlusnillinginn Jamie Laval og eins portúgölsku snillingana Joao Afonso og Filipe Raposo sem flytja ástar- og byltingarsöngva landa síns, Josés Afonso. Svo ætla þeir félagar í Hundur í óskilum að mæta með Lúðrasveitina Svaninn og flytja úrval af sínum vinsælustu lögum. En þetta er nú bara svona brot af því besta og erfitt að vera að gera upp á milli.“

Eitt það allra skemmtilegasta við Þjóðlagahátíðina á Siglufirði er að þar er boðið upp á ýmis skemmtileg námskeið og öllum gefst tækifæri til að taka þátt. „Námskeiðin eru bæði fyrir hljóðfæraleikara og þá sem vilja koma og sækja sér fræðslu og skemmtan. Við reynum að virkja alla því þannig njótum við öll hátíðarinnar sem best. Það þarf nefnilega að sinna þjóðlagaarfinum til þess að hann haldi áfram að lifa með þjóðinni. Ég hvet fólk til þess að kynna sér vel hvað er í boði á vefsíðunni okkar folkmusik.is og koma svo og hafa gaman af þessu með okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×