Innlent

Þjóðleikhúsráð uppfyllir ekki jafnréttislög

sveinn arnarsson skrifar
Fjórir karlar og ein kona skipa Þjóðleikhúsráð.
Fjórir karlar og ein kona skipa Þjóðleikhúsráð. Fréttablaðið/GVA
Þjóðleikhúsráð uppfyllir ekki lög um jafna stöðu karla og kvenna. Fjórir karlar eru í ráðinu en einungis ein kona. „Það stendur skýrt og greinilega í lögunum að öll ráð og nefndir á vegum hins opinbera skuli vera skipaðar þannig að það halli ekki á annað kynið,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir jafnréttisstýra.

Eyþór Arnalds, nýskipaður formaður ráðsins, segir erfitt að framfylgja lögunum þegar fleiri en einn aðili skipa í ráðið. „Menn eiga hins vegar að hafa jafna stöðu kynjanna og jafnrétti í hávegum,“ segir hann.

Kristín Ástgeirsdóttir
Þjóðleikhúsráð er skipað fjórum körlum, Ragnari Kjartanssyni, Randveri Þorlákssyni, Agnari Jóni Egilssyni og Eyþóri Arnalds, formanni nefndarinnar. Herdís Þórðardóttir er eina konan í ráðinu.

Í lögum um jafna stöðu kynja frá árinu 2008 segir í 15. grein að gæta skuli þess að hlutfall kynja sé sem jafnast í ráðum, nefndum og stjórnum hins opinbera.

„Það er verkefni Jafnréttisstofu að hafa auga með skipunum hins opinbera. Við munum taka þetta mál upp og senda fyrirspurn varðandi þetta. Það má hins vegar benda á að þetta hefur ekki gerst hjá ríkinu í mörg ár að skipan í ráð og nefndir hafi brotið í bága við þessi lög,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×