Innlent

Þjóðin blekkt af mönnum sem standa uppi sem „ríkir snillingar“

Heimir Már Pétursson skrifar
Af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag.
Af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag. Vísir/Anton
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eru slegnir yfir niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar og telja þær kalla á frekari ransóknir.

Að loknum fundi með fréttamönnum gekk formaður rannsóknarnefndarinnar á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem hann fór yfir helstu niðurstöður og sat fyrir svörum nefndarmanna. Umræður fara síðan fram um skýrsluna á Alþingi á morgun.

Brynjar Níelsson formaður nefndarinnar segir að nú taki við nánari yfirferð á skýrslunni.

„Auðvitað er niðurstaðan sláandi. Það er að segja þar sem fullyrt er blekkingum hafi verið beitt. [...] Það sem kannski skiptir mestu máli í þessu; var þetta forsenda að hálfu stjórnvalda að þessi erlendi banki væri þarna. Það er eiginlega lykilspurningin sem við þurfum að svara, sem virðist vera samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar. Ég vil sjá þau gögn og fara yfir þau gögn og leyfa öðrum að tjá sig um þessi gögn sem kannski málið varða, áður en ég treysti mér til að taka afstöðu,“ segir Brynjar.

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir að í skýrslunni komi fram skýr mynd af því að allur almenningur og stjórnvöld hafi verið blekkt. En innan S-hópsins voru einstaklingar og félög sem tengdust mjög Framsóknarflokknum og Samvinnuhreyfingunni þegar hún var til.

„Það er nú þannig að Framsóknarflokkurinn og ekki síst fyrrverandi forystumenn, forsætisráðherra og formaður; Halldór heitinn Ásgrímsson, hefur setið undir talsverðum ásökunum um blekkingar og samsæri. Nú kemur að í ljós að stjórnvöld voru blekkt,“ segir Sigurður Ingi.

Þetta sé gríðarlegur áfellisdómur yfir söluferlinu og gæta þurfi að því að þetta sé ekki að fara að gerast aftur við sölu bankanna nú.

„Og núna við sölu á Arion banka er enn og aftur veifað, eigum við að segja viðurkenndum banka sem einum aðilanum. En við fáum ekki þau svör hvort hann sé raunverulegur eigandi,“ segir formaður Framsóknarflokksins.

Jón Þór Ólafsson fulltrúi Pírata í nefndinni segir mikilvægt að læra af mistökunum.

„Nú geta nefndirnar kallað eftir upplýsingum varðandi Arion banka og sölu ríkisins þar. Fengið þar trúnaðarupplýsingar og gengið úr skugga um að það sé ekki sami blekkingarleikurinn í gangi. [...] Klárlega þurfa þingmenn að fá fullvissu sína um þetta og að sjálfsögðu ætti almenningur líka að fá þessar upplýsingar. Annars skapast ekki traust varðandi sölu ríkisins á eignum,“ segir Jón Þór.

Jón Steindór Valdimarsson fulltrúi Viðreisnar segir skýrsluna sjokkerandi.

„Skýrslan er mjög afdráttarlaus og efni hennar er sjokkerandi. Maður er eiginlega miður sín eftir að lesa hana. Það er ljóst af því sem að minnsta kosti stendur í skýrslunni og ég hef lesið, að þarna var verið að beita miklum blekkingum. Það er verið að beita blekkingum sýnist manni til að sölsa undir sig fé. Það er grafalvarlegt mál,“ segir Jón Steindór.

Oddný G. Harðardóttir segir skýrsluna afdráttarlausa og skýra.

„Og við skulum ekki gleyma því að þarna voru eigur almennings á ferðinni. Þannig að það voru náttúrlega ríkar skyldur að skoða hlutina vel. Einhvern veginn stendur maður bara uppi með þá hugsun: Þarna voru einstaklingar sem að blekktu þjóðina og fulltrúa hennar og stand uppi sem ríkir snillingar,“ segir Oddný.

Svandís Svavarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna segir þörf á frekari rannsóknum.

„Þetta er náttúrlega mjög svört mynd sem er dregin upp þarna. Þetta hlýtur að vera í vissum skilningi áfall. Hins vegar brýnir þetta okkur í því að við þurfum að fá heildarmyndina. Ég held að það sé algerlega ljóst að við þurfum að sjá þessa einkavæðingu alla saman. Enda hefur Alþingi samþykkt að fara í þá vinnu og það hlýtur að vera næsta skref,“ segir Svandís Svavarsdóttir.


Tengdar fréttir

Geir um skýrsluna: "Dapurlegra en orð fá lýst“

Geir H. Haarde var fjármálaráðherra þegar hlutabréf í Búnaðarbankanum voru seld S-hópnum og staðfesti kaupin sem slíkur. Hann segir það "dapurlegra en orð fá lýst“ að stjórnvöld sem seldu þessa eign almennings í góðri trú og í samræmi við lagaheimildir, hafi verið blekkt varðandi aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupunum.

Ólafur Ólafsson við rannsóknarnefndina: ,,Bara I´m sorry“

Enginn þeirra fjögurra einstaklinga sem rannsóknarnefnd Alþingis boðaði til skýrslutöku vegna rannsóknarinnar á einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser mætti til skýrslutöku á vegum nefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×