Innlent

Þjóðhátíðarnefnd: Sérstök áhersla á forvarnir gegn öllu ofbeldi

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Herjólfsdal.
Úr Herjólfsdal. Vísir/Vilhelm
Þjóðhátíðarnefnd leggja sérstaka áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi á Þjóðhátíð í ár að því er fram kemur í tilkynningu frá nefndinni.

Mikil umræða hefur verið um kynferðisbrot eftir að lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum sagðist ekki ætla að upplýsa fjölmiðla um tilkynnt kynferðisbrot sem upp kunna að koma á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrr en eftir hátíðina. 

Í tilkynningunni frá nefndinni segir að sérstök athöfn verði haldin á Þjóðhátíð næsta föstudagskvöld þar sem sýnt verði með táknrænum hætti að ofbeldi á hátíðinni verði ekki liðið.

Þjóðhátíðarnefnd segir að öryggisgæsla verði aukin, og verði fimm öryggismyndavélum bætt við þær tólf sem settar hafa verið upp á undanförnum árum til að efla öryggi gesta á hátíðarsvæðinu.

Allt að hundrað manns verða í gæslu, sjúkraskýli verður sett upp skammt frá Brekkusviðinu þar sem læknisþjónusta verður í boði ásamt því sem áfallateymi verður á staðnum.

Þá hefur Þjóðhátíðarnefnd sett upp vegvísi inni á svæðinu sem sýnir hvar hægt verður að leita sér aðstoðar ef eitthvað kemur upp á, að því er fram kemur í tilkynningunni.​


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×