Erlent

Þjóðarsorg lýst yfir í Tyrklandi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fólk í Tyrklandi minnist fórnarlamba árásarinnar.
Fólk í Tyrklandi minnist fórnarlamba árásarinnar. Vísir/EPA
Að minnsta kosti 41 lést og 239 særðust í hryðjuverkaárás sem gerð var á Atatürk-flugvelli í Istanbúl í gærkvöld. Tyrknesk stjórnvöld telja fullvíst að vígamenn Íslamska ríkisins hafi borið ábyrgð á árásinni. Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í landinu.

Flugvöllurinn er sá stærsti og fjölsóttasti í Tyrklandi en þrír hryðjuverkamenn komu þangað í leigubíl í gærkvöld, gerðu árás í brottfararsal flugvallarins og skutu úr vélbyssum á nærstadda. Þegar lögreglumenn komu á svæðið sprengdu mennirnir sig í loft upp.

Enginn hefur lýst voðaverkunum á hendur sér en forsætisráðherra Tyrkklands, Binali Yildrim, segir að fyrstu vísbendingar bendi til þess að samtökin sem kenni sig við Íslamskt ríki standi að baki árásunum.

Langflestir þeirra sem létust í árásinni í gær voru Tyrkir en á meðal hinna látnu eru einnig þrettán erlendir ríkisborgarar. Óttast er að tala látinna fari hækkandi en yfir hundrað þeirra rúmlega 230 sem slösuðust hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsum.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti lýsti yfir þjóðarsorg í landinu og segir að hryðjuverkaárásin eigi að marka þáttaskil í hinni alþjóðlegu baráttu gegn herskáum uppreisnarhópum. Þá kallaði hann eftir sameiginlegu átaki þjóða gegn hryðjuverkasamtökum.

Bandarískir og þýskir ráðamenn hafa fordæmt árásina lýst yfir stuðningi við Tyrki. Þá bað Frans Páfi fyrir tyrknesku þjóðinni, fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra í dag.

Flugvellinum var lokað í nokkra klukkutíma eftir árásina en hann hefur nú verið opnaður aftur. Öryggisgæsla á vellinum hefur þó verið efld til muna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×