Innlent

Þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland samþykkt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Herþota við Keflavíkurflugvöll.
Herþota við Keflavíkurflugvöll. vísir/Vilhelm
Alþingi samþykkti í dag þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. 42 þingmenn greiddu atkvæði með og sex sátu hjá. Er þetta í fyrsta sinn sem þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland er samþykkt. Þingmenn flestra flokka fögnuðu því að stefnan hafi verið samþykkt.

„Þetta eru mjög merkileg tímamót. Alþingi hefur, í fyrsta skipti í lýðveldissögunni, samþykkt þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Sú þverpólitíska sátt sem náðst hefur hér á Alþingi um þennan mikilvæga málaflokk er sérstakt ánægjuefni,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir nýr utanríkisráðherra á Alþingi í dag.

Þjóðaröryggisstefnan nær jafnt til virkrar utanríkisstefnu, varnarstefnu og almannaöryggis og gerir meðal annars ráð fyrir að sett verði á fót sérstakt þjóðaröryggisráð sem hafi yfirsýn með framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og stuðli að virkri umræðu um öryggis- og varnarmál.

Þjóðaröryggisstefnan hefur verið í mótun frá því að Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu um stefnuna árið 2011 eftir að áhættumatsnefnd skilaði inn áhættumatsskýrslu til utanríkisráðherra árið 2009. Sagði Össur Skarphéðinsson í umræðum á Alþingi í dag að samþykkt stefnunnar væri söguleg.

„Þetta er sögulegt augnablik hér á Alþingi. Þrír utanríkisráðherrar hafa komið að málinu. Einn lagði stefnuna fram, annar hjó á mikilvægan hnút sem að máli kom og það mun koma í hlut þessa þriðja að leggja fram frumvarp sem hrindir stefnunni til framkvæmda,“ sagði Össur.


Tengdar fréttir

Þjóðaröryggisstefna mótuð

Tillaga utanríkisráðherra um þingsályktun um mótun öryggisstefnu Íslands í þjóðaröryggismálum var rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í gær. Tillagan verður lögð fram á þingflokksfundum í næstu viku, en efnislega vill utanríkisráðuneytið ekki gefa upplýsingar um tillöguna fyrr en hún hefur verið kynnt þingflokkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×