Fótbolti

Þjálfarinn talaði ekki við Rúnar: „Ljóst frá fyrsta degi að ég þyrfti að fara“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Már fór á láni.
Rúnar Már fór á láni. vísir/getty
Rúnar Már S. Sigurjónsson, landsliðsmaður í fótbolta, fór frá svissneska stórliðinu Grasshopper til St. Gallen á láni á dögunum en hann varð að losna frá Grasshopper þar sem hann fékk ekkert að spila.

Staða Rúnars breyttist snögglega þegar að þriðji þjálfarinn sem hann var með hjá liðinu var ráðinn í september en hann hafði lítil not fyrir Skagfirðinginn. Áður var Rúnar lykilmaður hjá Grasshopper.

„Úr því hvernig staðan var orðin hjá Grasshopper var þetta lífsnauðsynlegt. Þegar ég horfði til næstu mánaða þurfti ég að fara að spila og fá traust og gleði. Þetta var eitthvað sem að ég þurfti að gera,“ segir Rúnar í viðtali við Akraborgina sem má heyra í heild sinni hér að neðan.

„Þetta er svolítið skrítin staða. Ég kem þarna inn eftir EM í Frakklandi og er lykilmaður á fyrsta tímabilinu. Svo er sá þjálfari sem fékk mig rekinn í mars í fyrra og þá kemur annar þjálfari sem gaf mér enn þá stærra hlutverk og sett enn meiri ábyrgð á mig.“

Sá þjálfari var svo látinn fara í september á síðasta ári en þá var ráðinn Murat Yakin, fyrrverandi landsliðsmaður Sviss.

„Ég var ekki í framtíðaráformum hans frá fyrsta degi,“ segir Rúnar. „Ég veit ekki hver ástæðan er fyrir því. Ég byrjaði að spila fyrstu leikina undir hans stjórn en var alltaf tekinn út af eftir 55-60 mínútur, sama hvort ég var búinn að skora, leggja upp eða vera besti maður vallarins.“

„Á endanum var ég kominn á bekkinn. Ég fann það alveg á æfingum að þetta myndi ekkert breytast því hann talaði ekkert við mig og ég talaði ekkert við hann. Við smullum ekki saman frá fyrsta degi þannig að ég þurfti að losna og hann vildi eflaust losna við mig. Þessi niðurstaða var fínt fyrir báða aðila,“ segir Rúnar Már Sigurjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×