Handbolti

Þjálfari toppliðsins: Erum ennþá í mótun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grótta er eina liðið sem er með fullt hús stiga í Olís-deild karla en Seltirningar eru nokkuð óvænt á toppi deildarinnar eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

Grótta vann 1. deildina með yfirburðum tímabilið 2014-15 og endaði svo í 5. sæti Olís-deildarinnar á síðasta tímabili. Þá komst liðið einnig í bikarúrslit þar sem það tapaði fyrir Val.

Talsverðar breytingar urðu á Gróttuliðinu í sumar en tvær helstu skyttur þess, Viggó Kristjánsson og Daði Laxdal Gautason, hurfu á braut. Þá er leikstjórnandinn bráðefnilegi, Aron Dagur Pálsson, meiddur.

„Við höfum fylgt ákveðnu plani sem við lögðum upp með í þessum leikjum,“ sagði Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

„Við erum samt í upphafsfasa og með tiltölulega nýtt lið. Við erum að prófa menn í nýjum stöðum og koma nýjum leikmönnum inn í hlutina hjá okkur. Þetta hefur gengið vel og ég er ánægður með hvar við stöndum.“

Þrátt fyrir góða byrjun er Gunnar með báða fætur á jörðinni og segir Gróttu ekki vera með lið sem verður í toppbaráttu.

„Ég efast um það og við erum ekkert að hugsa um það. Við erum bara að hugsa um að koma okkur í stand og svo kemur bara í ljós hversu langt það fleytir okkur. Mér finnst við ennþá vera í mótun,“ sagði Gunnar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×