Fótbolti

Þjálfari Portúgals: Ísland og Noregur eru ekki með lík lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals.
Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals. vísir/getty
Þrátt fyrir öruggan 3-0 sigur á Noregi í gær vill Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, sjá betri frammistöðu frá sínum mönnum.

Portúgalar eru nú á fullu í undirbúningi fyrir EM í Frakklandi þar sem þeir eru með Íslandi í riðli.

„Við byrjuðum leikinn vel og fyrstu 20 mínúturnar voru góðar. Eftir það féllu Norðmennirnir aftar og við áttum í meiri vandræðum og flýttum okkur of mikið,“ sagði Santos sem er á leið á sitt fyrsta stórmót sem þjálfari Portúgals.

Sjá einnig: Ronaldo: Er mjög þreyttur en verð klár fyrir EM

„Í hálfleik brýndi ég fyrir mínum mönnum að láta boltann ganga hraðar en sumir leikmenn eru ekki enn komnir í takt eftir langt og erfitt tímabil.

„Úrslitin eru jákvæð og þetta var góður leikur en ekkert meira en það,“ bætti Santos við. Hann segir að Noregur og Ísland séu með ólík lið en Portúgalar mæta íslensku strákunum í Saint-Étienne 14. júní næstkomandi.

„Íslenska liðið er frábrugðið því norska. Þau eru lík að sömu leyti en í sumum leikjum eru þau gjörólík.“

Ísland mætir Noregi í vináttulandsleik í Osló á miðvikudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×