Körfubolti

Þjálfari Martins: Framtíðin er mjög björt fyrir þennan unga mann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson í leik með LIU.
Martin Hermannsson í leik með LIU. mynd/liu
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, fór á kostum með liði sínu Brooklyn Blackbirds í háskólaboltanum í nótt þegar liðið vann Sacred Heart, 92-84.

Martin skoraði 22 stig, tók átta fráköst, gaf stjö stoðsendingar og stal fimm boltum, en hann er aðeins fjórði leikmaðurinn í háskólaboltanum í vetur sem nær annarri eins tölfræðilínu.

Bakvörðurinn magnaði er á öðru ári hjá LIU Brooklyn-háskólanum og hefur augljóslega tekið miklum framförum. Þjálfari hans, Jack Perri, er mjög hrifinn af Martin sem leikmanni og hefur bara fallega hluti að segja um Íslendinginn.

Hörður Tulinius, fréttaritari körfuboltavefsíðunnar karfan.is, var í Brooklyn á dögunum og tók Perri tali þar sem hann spurði þjálfarann út í Martin Hermannsson. Viðtalið á vef karfan.is má sjá hér.

„Hann er frábær á svo marga vegu. Vinnusiðferði hans á sér enga hliðstæðu. Hann leggur sig allan fram á hverjum einasta degi og það þarf enginn að hafa neitt fyrir honum, hvort sem það er í skólastofunni, á skólalóðinni og sérstaklega ekki á körfuboltavellinum. Ég vildi óska þess að ég væri með fimmtán Martin Hermannssyni,“ sagði Perri.

„Það eina sem hann átti í vandræðum með í fyrra á fyrsta ári voru þriggja stiga skotin. Hann var ekki með góða nýtingu fyrir utan. Hann þurfti að keyra meira á körfuna eins og ég hélt að hann myndi gera.“

Martin, sem er fæddur árið 1994, fór með íslenska landsliðinu á EM í körfubolta á síðasta ári og safnaði þar miklu í reynslubankann. Perri telur þá ferð hafa gert honum vel.

„Við erum núna að horfa á Martin Hermannsson sem er fullur sjálfstrausts eftir að spila með íslenska landsliðinu. Nú er þriggja stiga nýtingin hans mun betri og hann er að búa sér til skot sjálfur og fyrir aðra,“ sagði Perri.

„Hann er búinn að vera alveg frábær, einn sá besti í deildinni. Hann er líka frábær leiðtogi og verður bara betri og betri. Martin verður líka bara betri varnarmaður því hann vinnur í varnarleiknum og það skiptir hann máli að bæta sig. Framtíðin er mjög björt fyrir þennan unga mann,“ sagði Jack Perri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×