Enski boltinn

Þjálfari Gylfa: Engin hætta á því að Swansea lendi í fallbaráttu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum á Anfield í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum á Anfield í gær. Vísir/Getty
Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea City, sagði eftir tapið á móti Liverpool í gær að það væri bara tímaspursmál hvenær liðið hans kæmist aftur á sigurbrautina.

Liverpool vann leikinn 1-0 á vítaspyrnu í seinni hálfleik og Swansea City er nú komið niður í 15. sæti deildarinnar.

Swansea City er nú bara fjórum stigum fyrir ofan fallsæti og hefur aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum.

„Það er enginn hætta á því að liðið lendi í fallbaráttu en auðvitað þurfum við að fara að ná í stig og það eins fljótt og auðið er," sagði Garry Monk við blaðamenn eftir leikinn.

„Okkur fannst við eiga mun meira skilið út úr þessum leik. Þetta var mjög góð frammistaða hjá mínu liði á móti mjög góðu liði. Því miður féllu ákvarðanir dómarans ekki með okkur," sagði Monk en vítið var dæmt á hendi hjá hans leikmanni.

Gylfi Þór Sigurðson lék allar 90 mínúturnar í leiknum en hann kom aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa byrjað á bekknum í fyrsta leiknum eftir landsleikjahléð.

„Ég vill hrósa leikmönnum mínum fyrir þennan leik. Það voru allir að vinna vel og allir voru staðráðnir að koma okkur aftur í gang. Ég get ekki kvartað yfir frammistöðu þeirra," sagði Monk.

Swansea City hefur fengið 14 stig í 14 leikjum og er með fjórum stigum meira en Bournemouth sem situr í síðasta fallsætinu. Chelsea er einu stigi fyrir ofan Swansea sem hefði oftast verið mun betri staða en hún er í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×