Innlent

Þjálfari Fram um hegðun foreldra: „Fásinna og hrein og bein lygi“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Lárus Rúnar Grétarsson er þjálfari 3. flokks Fram í knattspyrnu.
Lárus Rúnar Grétarsson er þjálfari 3. flokks Fram í knattspyrnu. Vísir
„Okkar hlið er nú heldur betur öðruvísi, þó sökin sé okkar megin varðandi þennan klefa,“ segir Lárus Rúnar Grétarsson, þjálfari 3. flokks Fram í knattspyrnu karla. Um helgina hefur verið fjallað um hegðun leikmanna og foreldra Fram-liðsins í íslenskum miðlum.

Foreldrum Framarana hefur gefið að sök að hrópa ókvæðisorð að dómara leiksins og setningar á borð við „Ég drep þig dómari“ hafa verið í umræðunni. Þá voru leikmenn liðsins sakaðir um að skilja búningsklefann eftir í rusli. Þar á meðal var klósett klefans fyllt af rusli.

Pressan greindi frá málinu í gær og vísaði þar í twitterfærslu Halldórs Árnason, yfirþjálfara yngri flokka hjá KR. Þar stóð orðrétt: „Ég drep þig dómari“  öskruðu foreldrar ítrekað af hliðarlínu í yngri flokka leik í dag. Gerðu svo aðsúg að dómara eftir leik.

Hér má sjá umrætt tíst frá Halldóri.
Lárus segir að leikmenn C-liðsins hafi skilið við búningsklefann í þessu ástandi en ekki leikmenn A-liðsins sem töpuðu 2-0 fyrir KR í Reykjavíkurmótinu. Það var aftur á móti í þeim leik sem allt varð vitlaust og hefur verið fjallað um.

Einn drengjanna hefur beðist afsökunar

„Þremur leikmönnum C-liðsins fannst þetta eitthvað fyndið og er sökin þeirra, algjörlega. A-liðinu var kennt um þetta atvik og það er einfaldlega rangt. Foreldri eins drengsins hafði samband við mig í gær  lét mig vita af því að þeir myndu fara í KR-heimilið og biðjast afsökunar. Við eigum síðan eftir að ræða við hina strákana tvo sem eru nefndir í þessu.“

Lárus segir að málið verði afgreitt innan flokksins.

„Við munum ræða við þessa drengi í dag á æfingu og þar verður málið tekið fyrir. Þeir fara að sjálfsögðu í agabann hjá okkur, bæðir frá æfingum og leikjum. Við höfum ekki tekið endanlega ákvörðun um hversu lengi, sennilega út Reykjavíkurmótið.

Hann segir að flokkurinn hafi aldrei lent í svipuðu atviki áður. Lárus tekur það fram að dómgæslan í þessum umrædda leik hafi verið hreint út sagt skelfileg.

„Dómgæslan var bara sér á parti í þessum leik. Við fengum tvö fáránleg rauð spjöld í leiknum en liðið hefur til að mynda aðeins fengið tvö gul spjöld allt mótið. Það sagði við mig maður á vegum knattspyrnuliðsins Víkings að hann hefði aldrei á ævi sinni séð jafn mikið hneyksli inn á knattspyrnuvellinum.“

Þjálfarinn segir að þetta hafi allt byrjað með þessari dómgæslu.

„Það er bara leiðinlegt að menn séu látnir dæma svona leiki sem eru svo langt frá því að vera hæfir í verkefnið,“ segir Lárus og bætir því einnig við að meint hegðun foreldra á leiknum sé stórlega ýkt.

Hrækt að einni mömmunni

„Þau kölluðu eitthvað smá inn á völlinn en síðan er kona sem á strák í A-liðinu sökuð um að ætla myrða dómarann. Það er bara fásinna og hrein og bein lygi. Það veittust þrír leikmenn KR að konunni og einn þeirra hrækti í áttina að henni. Það er svo margt sem vantar í umfjöllun miðlanna varðandi þetta mál.“  

Lárus ítrekar samt sem áður að sökin sé Framara þegar kemur að umgengni í klefanum.

„Þetta er hundleiðinlegt mál fyrir okkur og við ætlum að reyna afgreiða það farsællega. Félögin vilja bæði leysa þetta á góðan hátt en það hefur verið vegið að okkur í þessari umfjöllun.“

Hér að neðan má sjá myndband sem tekið var inn í klefanum eftir leik C-liðs Fram en Kristján Daði Finnbjörnsson, húsvörður í KR-heimilinu, segist aldrei hafa orðið vitni að öðru eins í samtal við Pressuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×