Fótbolti

Þjálfari Englands: Hún skoraði kannski sjálfsmarkið en er samt hetja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Laura Bassett grét eftir leik.
Laura Bassett grét eftir leik. vísir/getty
Enska kvennalandsliðið féll úr leik á HM í nótt á eins ömurlegan máta og hugsast getur. Enska karlalandsliðið, eins mikil vonbrigði og það er oftast, gæti líklega ekki toppað þetta.

Eftir hetjulega baráttu gegn ríkjandi heimsmeisturum Japans skoraði varnarjaxlinn Laura Bassett ótrúlegt sjálfsmark í uppbótartíma sem kom Japan í úrslitaleikinn gegn Bandaríkjunum annað mótið í röð.

Bassett var eðlilega óhuggandi eftir leik en þjálfari enska liðsins, Mark Sampson, hafði ekkert nema góða hluti um leikmanninn að segja í tilfinningaþrungnu viðtali eftir leik.

„Við þurfum bara að óska stelpunum til hamingju með frábært mót,“ sagði Sampson, en enska liðið komst lengra en flestir höfðu spáð.

„Ég vil koma því á framfæri strax, að þó Laura Bassett hafi skorað þetta mark er hún það sem England hefur staðið fyrir á þessu móti.“

„Hún hefur verið hugrökk, sterk og haldið þessum hópi saman. Hún átti þetta ekki skilið. Það verður litið á hana sem hetju og ekkert annað. Hún var sú sem skallaði allt í burtu, tæklaði og hélt þessu liði saman,“ sagði Mark Sampson.

Enska liðið pakkar þó ekki saman og fer heim heldur á það erfiðan leik fyrir höndum gegn Þýskalandi í baráttunni um bronsið.

Sjálfsmarkið má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×