Fótbolti

Þjálfari Celtic: Ekki besti mótherjinn sem við mætum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronny Deila gerði Strömsgodset að norskum meisturum í fyrra.
Ronny Deila gerði Strömsgodset að norskum meisturum í fyrra. vísir/getty
Norðmaðurinn Ronny Deila, þjálfari Skotlandsmeistara Celtic, var ánægður með sigurinn á KR í kvöld í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Celtic fylgdi eftir 1-0 útisigri með 4-0 sigri á Murrayfield í Edinborg í kvöld og vann einvígið samanlagt, 5-0.

„Fyrri hálfleikurinn var góður, við byrjuðum vel. Við sköpuðum okkur færi, unnum boltann fljótlega aftur þegar við misstum hann og pressuðum stíft,“ sagði Deila við BBC eftir leikinn.

„Við vorum svolítið kærulausir í seinni hálfleik, en maður verður að vera ánægður með úrslitin. Þetta er góð byrjun, en auðvitað er þetta ekki besti mótherjinn sem við mætum.“

Celtic mætir annaðhvort Legía Varsjá eða St. Patricks frá Írlandi í næstu umferð og ætla Skotlandsmeistararnir að styrkja hópinn fyrir átökin.

„Við þurfum að kaupa leikmenn, en það verða að vera réttu spilararnir. Við gerum þetta á okkar átt, eins og félagið okkar hefur ávallt gert. Við vinnum hörðum höndum að þessu,“ sagði Ronny Deila.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×