Körfubolti

Þjálfari, þú verður bara að mæta á fleiri leiki með bindi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brad Stevens.
Brad Stevens. Vísir/Getty
Það er hægt að finna tölfræði um nánast hvað sem er í Bandaríkjunum og Chris Forsberg hjá ESPN er nú farinn að tengja frammistöðu liða við klæðaburð þjálfara.

Samkvæmt útreikningi Forsberg þá gengur Boston Celtics liðinu nefnilega miklu betur þegar þjálfarinn Brad Stevens mætir meira formlega klæddur í leikina.

Boston Celtics hefur nefnilega unnið 6 af 7 leikjum sínum þegar Brad Stevens er með bindi en aðeins 2 af 7 leikjum þegar hann sleppir bindinu.

Það er þó ekki bara bindið sem hefur bara áhrif því leikmennirnir héldu fund án þjálfarans fyrr í þessum mánuði eftir tvo vandræðaleg töp í röð.

Leikmennirnir tóku sig sérstaklega á í varnarleiknum og það á mikinn þátt í því að liðið hefur unnið 4 af síðustu 6 leikjum sínum og er með þriðju bestu vörnina samkvæmt tölfræðinni á þeim tíma.

Brad Stevens er nýorðinn fertugur en samt á sínu fjórða tímabili með Boston Celtics. Hann tók við liðinu árið 2013 eftir að hafa gert garðinn frægan sem þjálfari Butler í bandaríska háskólaboltanum.

Boston Celtics hefur bætt sig á hverju ári undir stjórn Brad Stevens. Liðið vann 30 prósent leikjanna 2013-14, 49 prósent leikjanna 2014-15, 59 prósent leikjanna 2015-16 og hefur unnið 57 prósent leikjanna í vetur.

Boston er líklegt til að hækka sigurhlutfallið enn frekar en liðið hefur unnið 5 af síðustu 7 leikjum sínum eftir „aðeins“ náð að landa þremur sigrum í fyrstu sjö leikjum sínum.

Chris Forsberg hefur líka ráðlagt Kelly Olynyk, hinum hármikla leikmanni Boston Celtics, að sleppa þunna hárbandinu og nota frekar karlatagl. Ástæðan er tölfræðin sem má sjá hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×