Erlent

Þingmenn Repúblikana ætla ekki á flokksþingið

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Margir öldungadeildarþingmenn Repúblikana ætla ekki að fara á flokksþing Repúblikanaflokksins þar sem Donald Trump verður væntanlega útnefndur frambjóðandi flokksins. Þingmenn flokksins hafa átt í vandræðum með Trump og margir hafa ekki viljað veita honum stuðning.

Velgengni Trump í forvali Repúblikana hefur valdið miklum deilum innan flokksins. AP fréttaveitan hefur rætt við suma þeirra um af hverju þeir ætli ekki á þingið. Það hefst á mánudaginn og líkur á fimmtudaginn.

Jeff Flake, segist ætla að slá lóðina sína. Steve Daines sagðist vera að fara að veiða með eiginkonu sinn. Lisa Murkowski ætlar í ferðalag um umdæmi sitt og verður hún á flugi um Alaska. John McCain sagðist ætla að fara í ferðalag til Grand Canyon.

Þrátt fyrir að meirihluti þingmanna flokksins ætli á þingið, eru fleiri en áður sem ætla ekki. Einn þingmaður sem AP ræddi við sagðist ekki vera viss um hvort hann færi. Af þeim sem buðu sig fram til embættis forseta er Ted Cruz sá eini sem ætlar á þingið.

Einn þingmaður sem ætlar ekki var spurður hvort að það væri vegna Donald Trump. Hann sagði svo ekki vera.

„Ég styð hann. Leyfið mér að orða það svona, ég ætla ekki að kjósa Hillary Clinton.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×