Innlent

Þingmaður spyr ráðherra um opnun sendibréfa

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir segir ekki síst mikilvægt í ljósi samantektar lögreglu um mótmæli að varpa ljósi á opnun stjórnvalda á sendibréfum almennings.
Birgitta Jónsdóttir segir ekki síst mikilvægt í ljósi samantektar lögreglu um mótmæli að varpa ljósi á opnun stjórnvalda á sendibréfum almennings. Fréttablaðið/Stefán
„Það er alls konar fólk sem er að lenda í að það er alltaf verið að gramsa í sendibréfum þess,“ segir Birgitta Jónsdóttir Pírati sem lagt hefur fram fyrirspurn á Alþingi til fjármálaráðherra um opnun sendibréfa.

Birgitta kveðst fá mikinn póst að utan og iðulega lenda í því að hann hafi verið opnaður áður en hann berst til hennar. Svipað gildi um son hennar.

Birgitta nefnir sem dæmi konu frá Bandaríkjunum sem hafi haft við hana samband. „Hennar bréf eru alltaf opnuð. Hún hefur engin fíkniefnatengsl eða þvíumlíkt – það eru engar skýringar.“

Birgitta Jónsdóttir telur Tollinn ganga of langt í að opna póstsendingar.Fréttablaðið/GVA
Engin svör hjá Tollinum

Fyrirspurn Birgittu er lögð fyrir fjármála- og efnahagsráðherra. Meðal annars er spurt hversu oft á árunum 2005 til 2013 stjórnvöld eða einhver í þeirra umboði hafi opnað sendibréf til og frá Íslandi og bréf sem send eru innanlands án þess að það hafi verið hluti af rannsókn sakamáls og í hversu mörgum af þeim tilfellum var beðið um dómsúrskurð fyrir opnuninni.

„Telur ráðherra að það verklag sem viðhaft er við opnun bréfasendinga uppfylli kröfur 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs?“ er lokaspurningin í fyrirspurn Birgittu.

„Maður fær engin svör ef maður spyr Tollinn,“ segir Birgitta sem kveður alls kyns sendingar til sín vera opnaðar, jafnvel þótt þær séu augljóslega ekki í gegnum söluvefi á borð við Amazon. Þessu fylgi óþægindi.

„Maður þarf að gefa þeim heimild til að opna til að leita að reikningi. Ég er búin að gera sjálfvirkt bréf, sem ég sendi alltaf, um að þeir megi opna allan póstinn minn. Þetta er náttúrlega fáránlegt.“

Eins og þeir megi opna allt

Birgitta undirstrikar að það sé hins vegar ekki sjálfrar hennar vegna sem hún setur fyrirspurnina fram. „Ég veit að margir mótmælendur og aðgerðasinnar hafa upplifað þetta áður en fólk fór að kaupa svona mikið í gegnum Amazon og Ali Express. Mér fannst þeir ganga mjög langt eftir að fólk fór að kaupa af Amazon. Þá var eins og það væri í lagi að opna allt,“ segir þingmaðurinn.

Málið segir Birgitta skipta sérstaklega miklu eftir að samantekt um aðgerðir lögreglunnar við mótmæli á hrunárunum var opinberuð. „Það er ótrúleg lesning vegna þess hversu langt er gengið í að leggja sumt fólk í einelti. Það er eins og hægt sé að afnema öll borgaraleg réttindi fólks út af stjórnmálaskoðunum eða vegna þess hvernig það lítur út.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×