Innlent

Þingmaður Framsóknar segir ekki tímabært að ákveða kjördag strax

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Elsa Lára Arnardóttir.
Elsa Lára Arnardóttir. Vísir/Pjetur
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, segir að ekki eigi að ganga til Alþingiskosninga fyrr en ríkisstjórnin hafi fengið að klára sín verkefni. Um sé að ræða mikilvæg mál sem ríkisstjórnin þurfi að fá að klára en fram að því sé ekki tímabært að ákveða kjördag.

„Undanfarna daga hafa fjölmiðlar verið að spyrja háttvirta þingmenn spurninga um hvort við styðjum hvort kosningar verði í haust. Ég svara því þannig að persónulega finnist mér ekki tímabært að ákveða  kjördag,“ sagði Elsa Lára á Alþingi í dag.

Hún segir að helst beri að nefna húsnæðismál, afnám verðtryggingar, endurbætur á almannatryggingakerfinu og að ráðast þurfi í endurbætur á löggjöf um fæðingarorlof. „Þegar þessum verkefnum er lokið er tímabært að ganga til kosninga hvort sem það er í haust eða síðar.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í gær að vanhugsað sé að hafa kosningar í haust – ríkisstjórnin þurfi að fá að klára sín mál.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, sagði í viðtali á sunnudag að ekkert væri ákveðið með kosningar í haust, en þau ummæli eru á skjön við það sem forsætisráðherra hefur haldið fram allt frá því hann settist í embættið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×