Erlent

Þingið staðfestir Sessions í embætti dómsmálaráðherra

atli ísleifsson skrifar
Jeff Sessions er mjög umdeildur maður í bandarískum stjórnmálum.
Jeff Sessions er mjög umdeildur maður í bandarískum stjórnmálum. Vísir/AFP
Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti í gærkvöldi útnefningu Donald Trump á Jeff Sessions í embætti dómsmálaráðherra með 52 atkvæðum gegn 47 eftir heitar umræður.

Sessions er mjög umdeildur maður í bandarískum stjórnmálum. Hann er öldungadeildarþingmaður en áður var hann dómsmálaráðherra Alabama-ríkis þar sem hann þótti fullur fordóma í garð svartra.

Í frétt BBC kemur frma að ekkja Martin Luther Kings hafi verið á meðal þeirra sem komu í veg fyrir að hann yrði settur í embætti alríkisdómara árið 1986.

Í yfirheyrslum áður en útnefning hans nú var staðfest ítrekuðu Demókratar vondan feril Sessions í mannréttindamálum, en hann er meðal annars sagður hafa gert allt sem hann gat til að koma í veg fyrir að svartir gætu kosið þegar hann var dómsmálaráðherra í Alabama.

Atkvæðagreiðslan í öldungadeildinni fylgdi flokkslínum en þó greiddi einn öldungadeildarþingmaður demókrata atkvæði með útnefningu hans.

Sessions mun nú taka við stjórn dómsmálaráðuneytisins með sína 113 þúsund starfsmenn, þar af 93 alríkissaksóknara.

Forsetinn óskaði Sessions til hamingju með embættið í Twitter-færslu í gærkvöldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×