Fótbolti

Thiago: Messi myndi skora 25 mörk þó hann væri markvörður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thiago Alcantara og Lionel Messi voru áður samherjar hjá Barcelona.
Thiago Alcantara og Lionel Messi voru áður samherjar hjá Barcelona. vísir/getty
Thiago Alcantara, Katalóninn í liði Bayern München, væri enn hjá Barcelona hefði Pep Guardiola ekki sagt upp störfum sem stjóri liðsins.

Guardiola yfirgaf Barcelona sumarið 2012 og tók sér þá árs frí frá þjálfun. Hann hafði þá unnið fjórtán titla á fjórum árum með Börsunga.

Skömmu eftir að Guardiola tók við Bayern lokkaði hann Thiago, einn efnilegasta miðjumann heims, til Bæjaralands. Hann stal leikmanninum í raun fyrir framan nefið á Manchester United.

Þeir félagarnir eru staddir heima í Katalóníu þar sem þeir mæta Barcelona í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

„Pep hefur alltaf haft mikla trú á mér og ég sömuleiðis hef trú á honum. Ef hann væri enn þjálfari Barcelona þá væri ég líklega enn leikmaður Barcelona,“ segir Thiago í viðtali við enska blaðið Independent.

„Það hjálpar samt engum að skoða fortíðina. Ég er bara heppinn að vera með Pep hjá Bayern núna.“

Spánverjinn hefur eðlilega fátt annað en góða hluti að segja um Lionel Messi að segja sem er sjóðheitur um þessar mundir.

„Hann er að spila aðeins aftar á vellinum en er samt búinn að skora 38 mörk í spænsku deildinni. Hann gæti spilað í marki en samt skorað 25 mörk,“ segir Thiago.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×