Enski boltinn

Þéttasta vörnin í deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brad Guzan hefur haldið hreinu í þremur af fjórum leikjum Aston Villa í úrvalsdeildinni.
Brad Guzan hefur haldið hreinu í þremur af fjórum leikjum Aston Villa í úrvalsdeildinni. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Aston Villa hafa ekki haft margt til að gleðjast yfir síðustu ár. Eftir að hafa lent í 6. sæti þrjú tímabil í röð undir stjórn Martins O‘Neill og gert atlögu að Meistaradeildarsæti hefur heldur betur hallað undan fæti hjá félaginu. Fyrir tímabilið var ekki búist við miklu af Villa, en Randy Lerner, eigandi félagsins, setti það á sölu eftir síðasta tímabil og enn sem komið er hefur ekki fundist kaupandi.

Knattspyrnustjóri Villa, Paul Lambert, þótti einnig sitja í einu heitasta sætinu í úrvalsdeildinni. Sú ákvörðun að fá Roy Keane, fyrrverandi fyrirliða Manchester United, sem aðstoðarþjálfara kom mörgum á óvart, en síðustu ár hefur það færst í vöxt að aðstoðarþjálfarar eða aðrir meðlimir í þjálfaraliðinu taki við þegar knattspyrnustjórar liða á Englandi eru reknir.

Það verður allavega einhver bið á því að Keane taki við, hafi hann hug á því. Eftir fjórar umferðir situr Villa í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tíu stig eftir fjóra leiki. Villa byrjaði tímabilið á 0-1 útisigri á Stoke, gerði svo markalaust jafntefli við Newcastle United á heimavelli og í síðasta leik fyrir landsleikjahléið bar Villa sigurorð af Hull City með tveimur mörkum gegn einu. Og á laugardaginn, í fyrsta leik eftir landsleikjahléið, fór Villa á Anfield Road og vann mjög svo óvæntan sigur á Liverpool. Gabriel Agbonlahor skoraði eina mark leiksins eftir hornspyrnu á 9. mínútu.

Liverpool var mun meira með boltann í leiknum og sótti stíft, en vörn Villa var þétt og liðið gaf fá færi á sér þrátt fyrir að Ron Vlaar, besti varnarmaður liðsins, væri ekki með vegna meiðsla. Lærisveinar Lamberts sluppu reyndar með skrekkinn þegar skot Philippes Coutinho small í stönginni á 80. mínútu, en fyrir utan það sköpuðu leikmenn Liverpool sér ekki mörg góð færi.

Villa hefur haldið hreinu í þremur af fjórum leikjum liðsins í úrvalsdeildinni sem er lykilinn að velgengninni. Spennandi verður að sjá hversu lengi þetta góða gengi heldur áfram, en stuðningsmenn hafa allavega fengið ástæðu til að brosa eftir langt hlé


Tengdar fréttir

Aston Villa sótti sigur á Anfield

Aston Villa lyfti sér upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta þegar liðið lagði Liverpool 1-0 á útivelli í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×