Lífið

Þetta gengur ekki lengur

Magnús Guðmundsson skrifar
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, er langþreytt á afleitum kjörum myndlistarmanna á Íslandi.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, er langþreytt á afleitum kjörum myndlistarmanna á Íslandi. Visir/Ernir
Jóna Hlíf Halldórsdóttir er formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna og í forsvari fyrir herferðinni Við borgum myndlistarmönnum. Herferðin, sem hefur nú staðið yfir í tæpt ár, miðar að því að listamenn fái greitt fyrir sína vinnu og þá einkum vinnu fyrir listasöfn. Jóna Hlíf segir vandamálið fólgið í því að það séu engir samningar við listamenn um hvort eða hvað þeir eigi að fá greitt frá söfnum fyrir sitt vinnuframlag.

Framlagssamningur

„Það leiðir til þess að listamenn fá mismikið fyrir sína vinnu og stundum jafnvel ekki neitt þar sem söfnin eru afar illa stödd fjárhagslega. Þess vegna viljum við að framlagssamningurinn, sem við erum búin að vera að kynna, verði tekinn í gildi hjá öllum listasöfnum sem eru rekin fyrir opinbert fé.

Samningurinn er í tvennu lagi. Annars vegar þóknun fyrir það að halda sýninguna. En sú tala er reiknuð út frá því hversu margir taka þátt í sýningunni, hversu margar vikur hún er uppi og að síðustu hversu margir heimsækja safnið á ári. Síðan er það vinnuframlagið og þar erum við nú ekki að biðja um mikið heldur að fara fram á 6.500 kr. á klukkustund sem verktakagreiðslu.

Áttatíu prósent listamanna eru að vinna aðra vinnu meðfram sinni listsköpun og það þýðir það að þegar þú ert að setja upp sýningu þá þarftu að fá frí úr vinnu. Það væri því eðlilegt að þegar þú þarft að vera viku eða mánuð frá vinnu til þess að vinna að því að setja upp sýninguna þá fáir þú greitt fyrir þá vinnu. Við viljum einnig að listamenn fái greitt fyrir listamannaspjall en það er ekki greitt fyrir slíkt hjá öllum söfnum í dag.“

Það þarf lítið til

Jóna Hlíf segir að rót þessa vanda sé einhvers konar gömul hefð sem listamenn sitja uppi með. „En vandinn er bæði fólginn í því að listin hefur breyst gríðarlega mikið á síðustu áratugum og svo eru listasöfnin alveg gríðarlega fjársvelt. Við hjá SÍM erum afar meðvituð um það og erum að reyna að vinna að því með þeim að fara fram á aukið fjármagn. Fjármagn sem gæti farið í að myndlistarmenn fengju greitt fyrir sína vinnu eins og annað fólk. Auðvitað geta listasöfnin eitthvað hagrætt en eftir hrun þá þurftu þau að hagræða svo mikið að það var í raun ekkert eftir.

Til þess að ungir listamenn fái tækifæri til þess að sýna í þessum söfnum og að það sé hægt að standa fyrir samsýningum þá verður að koma til meira fjármagn. Við erum ekkert að tala um brjálæðislegar upphæðir. Listasafn Reykjavíkur þarf um það bil 30 milljónir á ári til viðbótar og það eru þrjú söfn innan þess; Kjarvalsstaðir, Listasafn Reykjavíkur og Ásmundarsafn. Listasafn Akureyrar þarf um sex til sjö milljónir aukalega á ári til þess að greiða listamönnum og þetta er innan við 10% af gjöldunum hjá öllum söfnunum. Árið 2014 greiddi Listasafn Reykjavíkur 1.460.000 kr. í þóknun til listamanna. Ef Listasafnið hefði fengið auka fjárveitingu að upphæð 34.560.000 hefði það getað greitt listamönnum eftir Framlagssamningnum, það er innan við átta prósent af heildarútgjöldum safnsins. Mér finnst það vera mjög raunhæft og sanngjarnt að átta prósent af heildarútgjöldum safnsins fari í þóknun og laun til listamanna, sem öll starfsemi safnsins snýst um.

Öll starfsemi safnanna hverfist um starf listamannsins og þetta gengur ekki lengur. Þetta er svartur blettur á þjóðinni og það þarf svo lítið til þess að breyta þessu svo við getum staðið bein í baki og sagt: Við borgum myndlistarmönnum.“

Árið 2014 greiddi Listasafn Reykjavíkur 1.460.000 kr. í þóknun til listamanna.
Vitund án ábyrgðar

Jóna Hlíf bendir á að þar sem söfnin eru fjársvelt nú þegar þá sé þetta í raun pólitísk ákvörðun. „En það sem mér finnst vera mest pirrandi er að á þeim tíma sem við höfum verið að vinna að þessu þá benda allir á hvern annan. Sveitarfélögin benda á ríkið og mennta- og menningarmálaráðherra segir að þetta sé ekki undir hans hatti heldur fjármálaráðuneytisins. Ég er nú bara ekki sammála því vegna þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið hlýtur að þurfa að sjá til þess að Listasafn Íslands hafi það fjármagn sem þarf til þess að borga öllu sínu starfsfólki. Það er því ráðherrans að sækja þetta fjármagn en Listasafn Íslands þarf aðeins sex milljónir á ári til þess að geta uppfyllt þessar skyldur.

Alþingi þarf líka að skoða hvort ekki þurfi að setja saman nýjan sjóð eða auka fjármagn í safnasjóði til þess að geta komið til móts við þóknunarhluta samningsins. Þannig að söfnin gætu sótt þangað fjármagn til þess að greiða þóknunina en svo myndu sveitarfélögin greiða vinnuframlagið.

En mér finnst staðan vera þannig í dag að það vilja allir greiða listamönnum en það veit enginn hvaðan peningarnir eiga að koma. Það er auðvitað stórt skref að vera búinn að auka þessa vitund en það er ekki nóg.“

Skammarlega fátt um svör

Árið 2013 lét SÍM gera könnun á stöðu myndlistarmanna og þar kom sitthvað forvitnilegt í ljós. Á meðal þess sem Jóna Hlíf bendir á er að um 80 prósent myndlistarmanna í dag eru konur og að yfir 60 prósent eru undir lágmarkstekjum. „Þannig að þessi starfsstétt er láglaunastétt. Það er illa komið fram við þessa stétt sem er engu að síður hámenntuð. Þetta gengur ekki.“

Jóna Hlíf segir að nú þegar stutt sé til kosninga þá hafi myndlistarmenn fullan hug á að beita sér í þessum málum. „Viku fyrir kosningar þá kemur út tímaritið okkar Stara og í byrjun ágúst þá sendum við tíu spurningar á alla flokka sem eiga sæti á Alþingi. Við gáfum þeim þrjár vikur til þess að svara og það er skammarlegt hversu fáir svöruðu.

Vinstri græn svöruðu og þau eru með fína menningarstefnu sem er aðgengileg á netinu. Björt framtíð kom með ágætt svar, Framsóknarflokkurinn talaði meira um menntun en listir. Sjálfstæðisflokkurinn svaraði að málefnavinnu flokksins væri ekki lokið og því væri ekki hægt að veita upplýsingar byggðar á drögum málefnanefndar sem væru ósamþykktar af flokksráðsfundi. Þetta finnst mér ótrúlegt þar sem þeirra fulltrúi er mennta- og menningarmálaráðherra og það hefði nú átt að vera hægt að senda þetta áfram á hann. Píratar svöruðu okkur ekki og Samfylkingin ekki heldur.

Ef maður horfir á þetta þá leynir sér ekkert hvernig listamenn eiga að kjósa en svo má ekki gleyma því að það eru nýir flokkar í framboði og þeir voru ekki þarna að þessu sinni því við vissum ekki hvernig yrði með þá á þessum tíma. En núna þurfa myndlistarmenn að vakna og kjósa einfaldlega það sem er best fyrir þeirra framtíð því þetta gengur ekki lengur. Við þurfum að borga reikninga eins og aðrir, við eigum börn. Þetta er jafnréttismál og mannréttindabrot sem snýst um að skapa heilbrigt vinnuumhverfi. Ég veit að listamenn eru orðnir þreyttir og að þolinmæðin er að renna út og vonandi fer þetta nú að horfa til betri vegar. 

Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Menningarstarf styrkir þekkingarleit og nýsköpun í samfélaginu. Að sama skapi er tjáningarfrelsið grundvallarforsenda menningarlífs. Hvert samfélag þarf á öflugu listafólki að halda og hvert samfélag þarf að styðja við list ef það vill dafna sjálft.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×