Lífið

Þessi grátbroslegi heimur sem við lifum í

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Leigh segist halda sig innan stefnu raunsæisins.
Leigh segist halda sig innan stefnu raunsæisins.
„Ég hlakka mikið til að koma til landsins, ég hef aldrei komið áður,“ segir Mike Leigh, hinn víðfrægi breski leikstjóri sem verður einn heiðursgesta á RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík sem hefst í næstu viku. Aðspurður um hvort hann sé með einhverja áætlun, segir Leigh: „Nei, að vera með eitthvað plan væri ansi hrokafullt, held ég.“

Leigh hóf störf í leikhúsi á sjöunda áratugnum en í dag er hann einn virtasti núlifandi leikstjóri heims. „Lundúnarborg Leighs er jafn sérstæð og Rómarborg Fellinis eða Tókyó Ozus,“ var ritað um myndir Leighs í New York Review of Books á sínum tíma.

Á RIFF verða sýndar nokkrar gamlar myndir eftir Leigh; Naked, Life Is Sweet og Topsy-Turvy, ásamt nýju myndinni hans Mr. Turner. Myndin fjallar um ævi og störf breska málarans J.M.W. Turner.

„Sem málari er hann einstakur og list hans er ótrúleg og mjög sérstök,“ segir Leigh, aðspurður um ástæðuna fyrir því að hann laðaðist sérstaklega að Turner. „Hann er bæði einn besti enski málari allra tíma og einfaldlega einn besti málari allra tíma yfir höfuð.

Síðan bjóða málverkin hans upp á mjög myndræna meðhöndlun. Hann er mjög „sinematískur“ málari. Síðan er hin hliðin af teningnum, sem er persónan Turner. Sérvitur, flókinn og mótsagnakenndur fýr. Spennan milli mannsins og þessara ótrúlegu, epísku og háleitu verka finnst mér mjög áhugaverð. Það kallaði eiginlega á að gera mynd um hann.“

Persónusköpunin í handritum Leigh er unnin á harla óhefðbundinn hátt en hann skapar eiginlega persónurnar ásamt leikurunum með löngu ferli rannsókna, umræðna og spuna. Timothy Spall sem leikur Turner eyddi til dæmis tveimur árum með myndlistarkennara sem kenndi honum að mála.

Myndir Leighs eru ekkert léttmeti en þær hafa oft einhverja djúpstæða merkingu. „Ég myndi segja að það sem þessi mynd eigi sameiginlegt með hinum myndunum mínum er það að hún er að einhverju leyti um siði og venjur samfélagsins, um sambönd fólks, um utangarðsmenn og fólk sem brýst frá „norminu“ og því sem er sjálfgefið."

Leigh kom að einhverju leyti út úr bresku menningarstefnunni „kitchen-sink realism“ á sjöunda áratugnum, eins konar félagslegu raunsæi sem lagði áherslu á lægri stéttir samfélagsins.

En hversu mikilvægt er raunsæið fyrir Leigh? „Ég reyni að gera mismunandi kvikmyndir en aðeins innan stefnu raunsæisins. Fyrir mig er það mjög náttúrulegt að taka myndavélina og beina henni að heiminum, sem er mjög flókinn og spennandi. Mig langar ekki að beina henni neitt annað – það gæti verið að ég horfi á heiminn í gegnum mismunandi linsur og prisma. Aðalmálið er að endurspegla þennan grátbroslega heim sem við lifum í.“



Myndin er dökk en jafnframt gullfalleg innsýn í líf týndrar sálar.
Fleiri Mike Leigh myndir á RIFF:



Naked (1993)

Naked fjallar um ógeðfelldan en gáfaðan ungan mann sem flýr frá Manchester til London til að flýja undan barsmíðum eftir að hafa nauðgað stúlku. Naked er dökk innsýn í líf týndrar sálar en myndin hlaut fjölda verðlauna á sínum tíma.

Topsy-Turvy (1999)

Myndin fjallar um Gilbert og Sullivan, leikritahöfundinn og tónskáldið sem unnu saman á Viktoríutímanum. Nýjasta leikrit teymisins fær hrikalegar viðtökur en síðan hefja þeir störf á meistaraverkinu Míkadó.

Life Is Sweet (1990)

Dramatísk gamanmynd um harla sérvitra fjölskyldu norður fyrir Lundúnum. Timothy Spall, sem leikur aðalhlutverkið í Mr. Turner, leikur í myndinni eins og mörgum öðrum myndum Leigh.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×