Körfubolti

Þessi "leikaraskapur" kostaði Curry 665 þúsund krónur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry, mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í vetur, átti stórleik í sigri Golden State Warriors í fyrsta leik í úrslitum Vesturdeildarinnar en forráðamenn NBA voru hinsvegar ekki nógu ánægðir með kappann.

Stephen Curry skoraði 34 stig í leiknum en eina af sex þriggja stiga körfum hans var afdrifarík fyrir veskið hans.

NBA ákvað að sekta Curry um 5000 þúsund dollara eða 665 þúsund krónur fyrir leikaraskap þegar hann fór í gólfið eftir að hafa smellt niður þristi í hraðaupphlaupi.

Bæði þjálfari Golden State Warriors, Steve Kerr og Stephen Curry sjálfur gagnrýndu sektina í viðtölum við blaðamenn.

„Svona gerist á hverjum degi í NBA-deildinni. Ég held að Jamal Crawford spili ekki leik án þess að reyna svona sex sinnum. Þetta er hluti af leiknum og mér fannst ekkert að þessu hjá honum," sagði Steve Kerr.

„Ég hef horft á þetta mörgum sinnum og það verður að taka tillit til þess að menn eru í minna jafnvægi í hraðaupphlaupum. Ég var bara að bregðast við snertingunni og var ekki að biðja um neina villu. Svona gerist margoft í hverjum leik," sagði Stephen Curry.

Annar leikur Golden State Warriors og Houston Rockets fer fram í kvöld og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan eitt eftir miðnætti.

Fyrir forvitna þá má sjá þennan „leikaraskap" Stephen Curry í myndbandinu hér fyrir neðan en atvikið kemur eftir um eina og hálfa mínútu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×