Erlent

Theresa May segir tæknirisa bera ábyrgð í baráttunni gegn hryðjuverkum

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Theresa May mun hitta leiðtoga G7 ríkjanna nú um helgina.
Theresa May mun hitta leiðtoga G7 ríkjanna nú um helgina. Vísir/Getty
Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, mun hvetja leiðtoga G7 ríkjanna til að fá tæknirisa á borð við Google og Facebook í lið með sér til að berjast gegn skilaboðum öfgahópa, á borð við Íslamska ríkisins, á internetinu. Hér sé um að ræða samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna. Fundur leiðtoganna mun eiga sér stað á Sikiley dagana 26.maí - 28.maí.

Á vef Guardian kemur fram að May telji að baráttan við öfgahópa sem þessa sé að færast frá vígvellinum yfir á internetið. May bendir á að samfélagsmiðlar og leitarvélar geti haft áhrif á innihald sinna miðla og þannig komið í veg fyrir að öfgahópar geti komið áróðri sínum á framfæri. Tæknirisarnir gætu einnig látið yfirvöld vita um leið og vafasamt efni myndi birtast. May bendir á að samvinna á milli ríkjanna skipti miklu máli hvað þetta varðar.

Samkvæmt Guardian hefur May viðrað þá hugmynd sína að þeir miðlar sem ekki sjái sér fært að aðstoða við að uppræta hatursfullan áróður verði dregnir til ábyrgðar en þó voni hún að ekki þurfi að koma til þess.

Óhætt er að segja að mikið verk er fyrir höndum en May mun þurfa að sannfæra Donald Trump að taka þátt í þessu verkefni með sér enda eru margir af stærstu samfélagsmiðlum heims staðsettir í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×