Viðskipti innlent

Þensla ekki fyrirstaða skattalækkanna

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
VISIR/PJETUR
Í fjárlögum síðasta árs var tekjuskattur í miðþrepi lækkaður um 0,5% en ríkissjóður varð fyrir nokkurra milljarða tekjutapi vegna þessa.

Fjárlaganefnd átti í gær fund með fjármálaráðherra þar sem farið var yfir áherslur fyrir fjárlagafrumvarp næsta árs en ráðherra leggur á það ríka áherslu að skila hallalausum fjárlögum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er ráðgert að ráðast í frekari lækkun á tekjuskatti í fjárlagafrumvarpinu sem birt verður í haust. Sérstök áhersla verður þá lögð á miðþrepið í því samhengi, enda greiða um 80% allra launþega tekjuskatt í því þrepi.

„Það var tekin ákvörðun um það á síðasta ári að lækka tryggingargjald, þannig að það heldur áfram að lækka. Þannig að já, það er boðaðar breytingar á skattakerfinu. Það á að einfalda skattakerfið og þegar einföldun á skattakerfinu á sér stað, þá geta sumir skattar hækkað og aðrir lækkað,“ segir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Undanfarið hefur verið varað við þenslumyndun í íslensku efnahagslífi. En telur Vigdís skynsamlegt að lækka skatta í slíku árferði?

„Það er auðvitað almenn hagfræðikenning sem að hefur þessar áherslur að það eigi ekki að lækka skatta í þenslu. En svona þannig séð, þá eru þensluáhrifin ekki farin að hafa áhrif að mínu mati. Ég lít á þetta allt saman mjög björtum augum, því við getum ekki sem þjóð verið ofan í holunni áfram, sem að myndaðist hér þegar að bankarnir hrundu,“ segir Vigdís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×