Skoðun

Þegar að kantsteinn er hindrun

Aðgengi fatlaðs fólks að samfélagi okkar eru mikil takmörk sett. Ástæðurnar fyrir því eru margar en í grunninn byggir hið slæma aðgengi á úreltum viðhorfum þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir fötluðu fólki í samfélaginu. Aðgengi er mjög vítt hugtak. Í því felst meðal annars að fatlað fólk hafi aðgang að hinu efnislega umhverfi og detta þá eflaust mörgum í hug lyftur, rampar og rúnnaðir kantsteinar sem virðast ekki vera sérstaklega mikið inn í dag. Mörg bíóhús, veitingastaðir, skemmtistaðir, leikhús, kaffihús og jafnvel menntastofnanir og vinnustaðir gera ekki ráð fyrir aðgengi fyrir fólk í hjólastólum. Oftar en ekki eru lyftur auk þess of litlar og rampar of brattir. Fólk með hreyfihömlun þekkir það manna best hversu slæmt slíkt aðgengi er í okkar samfélagi.

Aðgengi er hins vegar ekki bara að komast leiðar sinnar án þess að stöku kantsteinn hafi meiri áhrif en hann raunverulega þarf. Aðgengi er að geta nýtt samgöngur og að hafa aðgang að fréttum og upplýsingum um þjónustu og eigin réttindi með þeirri tjáskiptaleið sem hentar hverjum og einum. Aðgengi er að að geta unnið á almennum vinnumarkaði og að geta sótt sér menntun á öllum skólastigum. Við getum ekki sagt að fatlað fólk búi við jafnrétti ef það er aðeins velkomið í þetta samfélag að hluta. Heft aðgengi einstaklinga að samfélaginu, á grundvelli fötlunar, er mismunun.   

Stutt er síðan Ferðaþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu olli mikilli samfélagslegri umræðu. Fatlað fólk komst ekki ferða sinna og mátti líða þjáningar sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir hefði ekki verið ráðist í hlutina að vanhugsuðu og illa undirbúnu máli. Í kjölfar marga mistaka var sett á neyðarstjórn Strætó sem lauk störfum þann 5. mars síðastliðinn. Stjórnin skilaði af sér skýrslu um stöðu ferðaþjónustu fatlaðs fólks og gerði tillögur að breytingum. Ljóst er að röð fjölmargra alvarlegra mistaka, sem skýrsluhöfundar, Reykjavíkurborg og Strætó kalla alltof oft atvik, voru gerð innan ferðaþjónustunnar. Slík mistök hefði verið hægt að koma í veg fyrir með samráði við fatlað fólk, hagsmunasamtök þess og fagfólk. Vert er að geta þess að einungis brot áðurnefndra mistaka birtist í fjölmiðlum og náði þannig til eyrna almennings, meðal annars vegna trúnaðarskyldu fagfólks.

Vanþjónusta Strætó við fatlað fólk á undanförnum mánuðum er aðeins ein birtingarmynd þess misréttis sem fatlað fólk hefur búið við í gegnum tíðina og býr enn við í íslensku samfélagi. Þar er aðgengi fatlaðs fólks að samfélaginu litið léttvægum augum. Ekki nóg með að svo mánuðum skipti væri fatlað fólk seint til vinnu, í skóla og missti af viðburðum sem höfðu tilfinningalegt gildi heldur var lífi þess í raun ógnað. Þetta er mannréttindabrot og verður að skoða í miklu stærra samhengi en eingöngu út frá einu fyrirtæki.  

Endurskipulagning ferðaþjónustu fatlaðs fólks, sem gekk í gildi um áramótin, var vanhugsuð frá upphafi. Alltof seint var brugðist við. Skýrsla neyðarstjórnar sýnir að ekki var hugsað til þarfa notenda. Í skýrslunni kemur fram að ferðaþjónusta fatlaðs fólks sé þess eðlis að ekki henti að setja hana í útboð á þann hátt sem gert var. Spyrja má að því hvort slík þjónusta eigi yfir höfuð að fara í útboð til einkaaðila. Hér er ekki um að ræða vöruflutninga eða iðnaðarframkvæmdir heldur þjónustu við fólk. Framkvæmd þjónustunnar á ekki að miða að því að hún kosti sem minnst heldur að gæði hennar séu sem mest. Það er óskandi að hin bága framkvæmd ferðaþjónustu fatlaðs fólks hingað til verði víti til varnaðar þegar litið er til þjónustu við fatlað fólk í framtíðinni.

Þótt alltof mikið hafi þurft til hefur umræða í samfélaginu um réttindi og lífskjör fólks sem þarf á stuðningi að halda aukist undanfarið. Sú umræða hlýtur að hafa jákvæð áhrif og stuðlar vonandi að breytingum. Í skýrslu neyðarstjórnar má strax finna vísi að slíku. Þar er fjallað um að koma þurfi á laggirnar starfi stjórnanda ferðaþjónustu fatlaðs fólks sem hafi þekkingu á þjónustu við fatlað fólk. Ljóst er að löngu er orðið tímabært að aðilar með slíka þekkingu, til að mynda þroskaþjálfar, starfi innan ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Þannig er meðal annars hægt að stuðla að því að fötluðu fólki sé sýnd virðing. Fyrst og fremst þarf þó að hlusta á þarfir notenda og hafa virkt samráð við þá, ekki eingöngu þegar illa gengur.

Fatlað fólk þarf að hafa aðgengi að samfélaginu sem það býr í. Það merkir að á öllum sviðum samfélagsins, líka þeim sem ekki hefur þótt eðlilegt hingað til að fatlað fólk tilheyri, þarf að starfa fólk sem hefur þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og að hafa samráð við fatlað fólk sem hefur reynsluna og þekkinguna á eigin þörfum manna best. Reynslan sýnir að þess er þörf. Þannig er hægt að breyta viðhorfum og búa til umhverfi þar sem alls staðar er gert ráð fyrir fólki. Fatlað fólk er nefnilega líka fólk skyldi það hafa gleymst einhvers staðar á leiðinni. Það kann að koma á óvart en það er hægt að koma í veg fyrir að einn manngerður kantsteinn sé látinn hindra fólk til athafna.




Skoðun

Sjá meira


×