Lífið

The Revolution kemur saman aftur

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Prince kom iðulega fram með bandinu The Revolution fyrstu ár ferils síns.
Prince kom iðulega fram með bandinu The Revolution fyrstu ár ferils síns. Vísir/Getty
Í kjölfar andláts tónlistamannsins Prince hefur gamla hljómsveitin hans, The Revolution, ákveðið að koma saman aftur. Þetta tilkynnir bassaleikari sveitarinnar, Brown Mark, í myndbandi á Facebook-síðu sinni.

BBC hefur það eftir gítarleikara The Revolution, Wendy Melvoin, að eftir að meðlimir sveitarinnar hafi eytt tíma saman við að syrgja Prince hafi þau ákveðið að spila á nokkrum tónleikum.

Hljómsveitin, sem lagði upp laupana árið 1986, hefur oft gengið í gegnum mannabreytingar, en það er líklegt að þarna verði saman komin, ásamt Mark og Melvoin, hljómborðsleikararnir Lisa Cole­man og Matt Fink auk trommarans Bobby Z.

Engar dagsetningar hafa verið tilkynntar en Melvoin segir að þær komi bráðlega.

The Revolution var bandið hans Prince þegar hann var að hefja feril sinn en bandið fékk þó ekki þessa nafngift fyrr en það kom fram í kvikmyndinni Purple Rain, sem kom út árið 1984.

Bandið kom við sögu með Prince á fjórum plötum: Tónlistinni úr kvikmyndinni Purple Rain, Parade, 1999 og Around the World in a Day. Bandið spilaði einnig með Prince á sumum af hans stærstu smellum, t.d. When Doves Cry, Let’s Go Crazy og Kiss.

Hljómsveitin hætti eins og áður sagði árið 1986 eftir Parade-túrinn hans Prince.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×