Viðskipti erlent

The Force Awakens líklega yfir milljarðs dollara múrinn á morgun

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá Nýherja-sýningu Star Wars hér á landi.
Frá Nýherja-sýningu Star Wars hér á landi. vísir/ernir
Nýjasta Star Wars myndin, The Force Awakens, mun að öllum líkindum rjúfa milljarðs dollara múrinn á morgun og verða þar með sú mynd í sögunni sem fljótust er til að ná því marki. Þetta kemur fram á vef Bloomberg.

Myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum 18. desember en tveimur dögum fyrr í mörgum öðrum löndum. Á jóladag hafði myndin halað inn 890 milljónum dollara en þær upplýsingar fengust í fréttatilkynningu frá Disney. Til að setja hlutina í samhengi eru 890 milljónir dollara tæpir 116 milljarðar íslenskra króna.

Sú mynd sem fljótust hefur verið yfir milljarð dollara er, enn sem komið er, Jurassic World en endurkoma Júragarðsins náði því marki á aðeins þrettán dögum í júní síðastliðnum. Jurassic World átti einnig metið yfir stærstu opnunarhelgina en Star Wars sló það met fyrir skemmstu.

Allt útlit er fyrir að Star Wars fari yfir milljarðinn á morgun. Það þýðir að myndin náði því á aðeins ellefu dögum. Það yrði enn ein rósin í hnappagat myndarinnar en í gær, jóladag, sló hún metið yfir mesta miðasölu á jóladegi í Bandaríkjunum. Alls voru keyptir miðar á myndina fyrir 49,3 milljónir dollara í gær.

Disney samsteypan keypti Star Wars af George Lucas, skapara veraldarinnar, árið 2012 fyrir fjóra milljarða dollara. Allt að fimm nýjar myndir eru á teikniborðinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×