Innlent

Þaulskipulagt rán um hábjartan dag í Ármúla

Birgir Olgeirsson skrifar
Kaffistofa Samhjálpar í Borgartúni, þangað sem þvottavélin og þurrkarinn áttu að fara. Vélunum var hins vegar stolið af markaði Samhjálpar í Ármúla um hábjartan dag.
Kaffistofa Samhjálpar í Borgartúni, þangað sem þvottavélin og þurrkarinn áttu að fara. Vélunum var hins vegar stolið af markaði Samhjálpar í Ármúla um hábjartan dag. Vísir/Arnþór
Þaulskipulagt rán var framið um hábjartan dag í markaði Samhjálpar í Ármúla í byrjun síðastliðins mánaðar.

Starfsmenn Samhjálpar höfðu komið fyrir þvottavél og þurrkara af Mile-gerð í starfsmannarými markaðarins í Ármúla en þar átti að geyma vélarnar þar til þær yrðu fluttar í kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni.

„Enginn vissi um þetta nema við sem vorum að flytja,“ segir Vörður Leví Traustason hjá Samhjálp. Skömmu síðar mætir maður á sendiferðabíl að markaði Samhjálpar í Ármúla og segist vera að sækja þvottavélina og þurrkarann. Þann dag var afleysingafólk á markaðnum og segir Vörður Leví manninn á sendiferðabílnum hafa sagst vera á vegum Samhjálpar og sýnt afleysingarfólkinu SMS-skilaboð því til staðfestingar að hann ætti að sækja vélarnar og flytja þær á endanlegan áfangastað að kaffistofu samtakanna í Borgartúni.

Síðar kom á daginn að maðurinn var ekki allur þar sem hann er séður og hefur ekkert spurst til vélanna. „Þetta var þaulskipulagt rán um miðjan dag,“ segir Vörður Leví. Ránið hefur verið kært til lögreglu sem er með það til rannsóknar og var hægt að gefa lýsingu á manninum sem þó er ekki vitað með vissu hver er.

Samtökin reka einnig tvö áfangaheimili, Brú og Spor, og var nýlegum Philips-flatskjá stolið þaðan nýlega. Vörður Leví segir málið allt saman afar dapurlegt því þvottavélina og þurrkarann átti að nota á kaffistofunni Samhjálpar í Borgartúni sem er rekin fyrir utangarðsfólk og aðra aðstöðulausa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×