Innlent

Þátttaka Íslands á Evrópumeistaramótinu sögð öflug landkynning

Snærós Sindradóttir skrifar
Þessar turtildúfur skemmta sér konunglega á EM
Þessar turtildúfur skemmta sér konunglega á EM Fréttablaðið/Vilhelm
Teikn eru á lofti um að fleiri hugleiði ferð til Íslands í kjölfar EM í knattspyrnu. Starfsmenn Íslandsstofu halda úti öflugu kynningarstarfi í Frakklandi á meðan á mótinu stendur.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður Íslandsstofu, segir hvert tækifæri nýtt til kynningar. „Við erum með landkynningu á ráðhústorginu í París þar sem við kynnum íslenska menningu. Þar höfum við verið með lítið eldhús og svo vorum við með menningarkynningu í Marseille.“

Að sögn Ingu er starfsfólk Íslandsstofu að drukkna í fyrirspurnum frá fjölmiðlafólki og áhugasömum aðilum um Ísland, hvort sem er knattspyrnu eða annað sem tengist landinu. Samfélagsmiðlar logi. „Við höfum aldrei fengið svona mikil viðbrögð við færslum eins og núna. Á Inspired-síðunum okkar náðum við til 140 þúsund manns á mánudag. Vefirnir okkar eru svo almennt með í kringum fimm þúsund heimsóknir á dag en það fór í fimmtán þúsund á mánudag,“ segir Inga.

Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður Íslandsstofu
Eina skiptið þar sem Ísland hefur fengið jafn mikla athygli á leitarvélum var þegar gosið í Eyjafjallajökli hamlaði flugsamgöngum. „En nú er þetta jákvæð umfjöllun um land og þjóð, sem er kannski svolítið annað.“

Íslendingar megi ekki ofmeta vinsældir sínar. „Við höldum alltaf að það viti allir hverjir við erum en það er ekki þannig. Við erum lítil eyja og margir vita ekki einu sinni hvar við erum á heimskortinu. Það að fá þessa umfjöllun í tengslum við EM er alveg frábært.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×