Lífið

Þarmaflóran er áunnið líffæri

Rikka skrifar
Birna Ásbjörnsdóttir hefur miklar áhyggjur af aukningu sýklalyfjanotkunar í heiminum og segir hana komna fram úr allri heilbrigðri skynsemi.
Birna Ásbjörnsdóttir hefur miklar áhyggjur af aukningu sýklalyfjanotkunar í heiminum og segir hana komna fram úr allri heilbrigðri skynsemi. visir/anton

Birna Ásbjörnsdóttir hefur löngum trúað á lækningamátt líkamans og hneigðist í átt að náttúrulegum lausnum á unga aldri. Hún er fædd og uppalin á Seltjarnarnesinu en að menntaskóla loknum fluttist hún búferlum til Bretlands þar sem hún hóf nám í mann­speki, sem er eins konar heimspeki byggð á kenningum austur­ríska heimspekingsins Rudolfs Steiner. Aðspurð hvað það hefði verið sem fékk unga konu til að velja sér jafn óvenjulegt nám og mannspeki segir Birna að það hafi hreinlega verið djúpur áhugi á lífinu.

„Mannspekin tengir allt saman, ein fruma í okkur speglar í rauninni alheiminn og það heillaði mig.“ Birna hélt áfram að feta sig áfram í heimspekinni og sótti síðar nám í mannspekilækningum en þar til hún bankaði upp á hafði námið einungis verið fyrir menntaða lækna.

„Ég fékk að sækja námið vegna þeirrar menntunar sem ég hafði sótt mér áður á sviði náttúrulækninga. Námið í mannspekilækningum nýttist mér vel og dýpkaði um leið skilning minn á þeim þáttum sem þarf að taka tillit til við lækningar og skoða þannig samhengið í heild sinni,“ segir Birna. „Við erum of upptekin af því að sundurgreina allt í dag, en þannig töpum við samhengi hluta.“

Bretland hefur verið Birnu annað heimaland þar sem hún hefur sótt fjölmörg námskeið og lauk nýlega tveimur meistaragráðum, annars vegar í gagnreyndri heilbrigðis- og læknisfræði og hins vegar í næringar­læknisfræði. Hér heima slær hjarta okkar konu í sveitinni á Sólheimum en þar sótti hún um starf fyrir um tuttugu árum og er þar enn. „Ég sótti um starf á Sólheimum þar sem starfsemin er byggð upp að hluta á fræðum Rud­olfs Steiner og mann­speki, mér fannst þetta því kjörinn vettvangur fyrir mig. Eftir að ég var búin að vera þar í örfáa daga þá hitti ég Guðmund, tilvonandi eiginmann minn sem í dag er framkvæmda­stjóri Sólheima.“ Fyrir þá sem ekki vita eða þekkja til Sólheima þá er það sjálfbært samfélag í Grímsnesi með öfuga blöndun sem þýðir að þar búa fatlaðir og ófatlaðir saman. Lífið þar gengur út á að þjónusta fatlaða með uppbyggjandi verkefnum, meðal annars í lífrænni ræktun og listmunaframleiðslu. „Þetta er mjög fallegt og gott samfélag.“

„Þarna skildi ég tilganginn“

Þau hjónin eiga tvö börn saman en Guðmundur átti dóttur frá fyrra sambandi. Þegar Birna varð ólétt að yngra barni þeirra hjóna ákváðu þau að fara ekki í skimun á meðgöngunni því þau vildu bjóða þann einstakling velkominn sem hefði ákveðið að koma til þeirra. „Meðgangan gekk vonum framar en það eina sem ég vissi að væri að var það að ég ætti von á sitjandi fæðingu,“ segir Birna sem setti það ekki fyrir sig að eiga barnið á fæðingardeild þrátt fyrir að hafa óskað eftir því að eiga það heima eins og dótturina sex árum áður. „Fæðingin gekk að óskum en fljótlega eftir að sonur okkar kom í heiminn varð ljóst að hann var með Downs-heilkenni.“

Hjónin tóku barninu opnum örmum enda þekkja þau vel til einstaklinga með heilkennið og vinna náið með þeim alla daga ársins. „Ég hugsaði á þessum tíma að hann hefði tekið þá ákvörðun að velja okkur sem foreldra þar sem við búum á Sólheimum,“ segir Birna og hlær. „Hann vissi nákvæmlega hvað hann vildi. Hjá okkur hefur sonur okkar allt sem hann þarf og meira til. Það er í rauninni áhugavert þegar ég hugsa til baka að stuttu fyrir fæðinguna þá skrifaði maðurinn minn grein sem birtist í fjölmiðlum um það hvað hann væri mikið á móti skimunum fyrir Downs-heilkenni á meðgöngu. Ég held að hann hafi í hjartanu vitað þetta sjálfur, að við myndum eignast barn með þetta heilkenni, og ég minnist þess að hann hafi gaukað því að mér á einhverjum tímapunkti, það fór bara inn um annað og út um hitt.“

Fljótlega eftir að þau hjónin komu heim með gleðigjafann sinn af fæðingardeildinni kom í ljós að sonur þeirra var með hjartagalla og þurfti að bregðast skjótt við með stórri aðgerð sem framkvæmd var í Boston í Bandaríkjunum. „Þetta var stóra áfallið okkar, sérstaklega vegna þess að ég er náttúrukona sem hefur ekki gengist við lyfjum í gegnum ævina. Ég þurfti því bara að ná í stóran skammt af æðruleysi og upplifa það að fara til Boston­ og láta barnið í hendurnar á skurðlækni sem þurfti að gera opinn hjartaskurð á barninu mínu þar sem það flæddi á milli hjartahólfa. Sem betur fer náði hann sér fljótt eftir þetta allt saman og er alheilbrigður í dag.

Þarna skildi ég einlæglega tilganginn með vestrænum lækningaaðferðum en það var eitthvað sem ég var ekkert allt of upptekin af að skilja áður.“ Í dag er sonur þeirra sæll og glaður með sitt, gengur í leikskóla í nágrenninu og fær stuðning sér til halds og trausts. „Hann er þvílíkt skemmtilegur og líflegur karakter. Hann er alltaf ánægður og sáttur við sitt, hvort sem það er að fara að pissa eða borða,“ segir Birna með blik í auga og bros á vör.

Þarmaflóran er spennandi

Birna hefur þá skoðun að heillavænlegast sé að blanda vestrænum lækningum saman við þær náttúrulegu því báðar hafa þær mikið fram að færa. „Hefðbundnar lækningar eru nauðsynlegar og mikilvægar framfarir í þeim efnum sem eru ómetanlegar. Við erum aftur á móti ekki að setja nægilegt fjármagn og fókus á forvarnir til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma. Við vitum orðið svo margt sem hægt er að vinna með eins og til að mynda streitu, óhollt mataræði og hreyfingarleysi. Við gætum verið að uppfræða fólk mikið meira og með því afstýra mörgum af þessum heilbrigðisvandamálum.“

Mikil umræða hefur verið um meltingarveginn undanfarin ár og hefur Birna haldið fyrirlestra um hann undanfarið sem vakið hafa mikla athygli. „Ég held að öll okkar heilsa byggist á meltingarveginum og heilbrigðri meltingarflóru. Þarmaflóran er svo spennandi að því leyti að við sjálf höfum svo mikið um það að segja hvernig hún blómstrar, þetta er okkar eigin hönnun. Við getum viðhaldið góðri þarma­flóru með heilbrigðum lífsstíl og þá þarf ekki einungis að huga að góðu mataræði og hreyfingu heldur hefur til að mynda streita mikil áhrif. Ójafnvægi í þarma­flórunni, hvort sem orsökin er slæmt mataræði eða annað, hefur líka áhrif á andlega líðan. Það er svo merkilegt að þetta vinnur í báðar áttir. Við getum skapað vanlíðan og streitu með röngu mataræði og það getur jafnvel orðið það slæmt að einstaklingar upplifi þunglyndi, kvíða og jafnvel alvarlegri geðsjúkdóma vegna röskunar í gegnum skemmda eða raskaða þarmaflóru.“

Vá vofir yfir mannkyninu

Birna hefur miklar áhyggjur af aukningu sýklalyfjanotkunar í heiminum og segir hana komna fram úr allri heilbrigðri skynsemi. „Ein staðreynd er sú að við stöndum frammi fyrir því í heiminum að það er lítil sem engin þróun á sýklalyfjum. Önnur staðreynd er sú að við notum allt of mikið af þessum lyfjum sem leitt hefur til þess að upp eru komnar ónæmar bakteríur sem engin sýklalyf geta unnið á. Ef ekkert verður gert til þess að sporna við þessari þróun getur afleiðingin orðið hrikaleg fyrir allt mannkynið. Bretar og Bandaríkjamenn eru að taka við sér í þessari umræðu en ég hef því miður heyrt allt of lítið um hana hérna heima, ég vona að það verði breyting þar á sem fyrst.“ Að mati Birnu er ein af leiðunum til að draga úr notkun sýklalyfja að koma í veg fyrir sýkingar og þá komum við aftur að þörmunum. „Með því að styrkja bakteríuflóru þarmanna, þá styrkjum við ónæmiskerfið.“

Aðspurð hvernig hægt sé að styrkja þarma­flóruna með einföldum hætti segir Birna að hver og einn þurfi að huga að jafnvægi þarma­flórunnar með því að taka inn góða gerla og minnka inntöku á fæði sem nærir slæmu bakteríurnar í þörmunum. „Hægt er að kaupa góða gerla eða „probiotics“ og taka þá inn en ­einnig borða fæðu sem inniheldur þá eins og til dæmis jógúrt og AB-mjólk. Við getum líka búið til fæðu sem inniheldur gerlana eins og til dæmis súrkál, kefír og te úr kombucha-svepp. Við þurfum líka að fá fæðu sem viðheldur gerl­unum. Grænmeti, ávextir, baunir, hnetur og fræ sem innihalda gott prótín og trefjar eru þar á meðal og má finna það í hollum og góðum heimilismat,“ segir Birna og bætir við að heilbrigði snúist ekki um hitaeiningar eða megrunarkúra heldur þá næringu sem líkamanum er gefin. „Í rauninni er þetta ekkert flókið, það er gott þegar þú ert að borða að hugsa um hvað þú sért að næra, góðu eða slæmu gerlana. Flestir hafa sterka tilfinningu fyrir því hvort sé, en aðrir þurfa hjálp við að læra það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×