Innlent

Þarf aukna fræðslu og úrræði fyrir þolendur

viktoría hermannsdóttir skrifar
Helga hefur starfað sem ráðgjafi hjá Stígamótum í um ár og þar hefur hún hjálpað fötluðum fórnarlömbum ofbeldis auk þess að sinna fræðslu um málefnið. Hún segir þurfa að byrja á því að breyta þjónustu við fatlaða þannig þeir fái að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum.
Helga hefur starfað sem ráðgjafi hjá Stígamótum í um ár og þar hefur hún hjálpað fötluðum fórnarlömbum ofbeldis auk þess að sinna fræðslu um málefnið. Hún segir þurfa að byrja á því að breyta þjónustu við fatlaða þannig þeir fái að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Fréttablaðið/GVA
„Allar rannsóknir sýna að fatlað fólk verður fyrir meira ofbeldi en aðrir,“ segir Helga Baldvins- og Bjargardóttir ráðgjafi hjá Stígamótum. Helga byrjaði að starfa hjá Stígamótum fyrir um ári og einbeitir sér sérstaklega að því að hjálpa fötluðum brotaþolum ofbeldis.

Fréttablaðið sagði í gær frá nýrri rannsókn á ofbeldi gegn konum þar sem kemur fram að stuðning vanti fyrir brotaþola. Helga hefur starfað hjá Stígamótum í um ár en hún var ráðin sérstaklega inn til þess að hjálpa fötluðum þolendum ofbeldis. Á því ári sem Helga hefur starfað hjá Stígamótum hafa leitað til hennar um 30 fatlaðir þolendur ofbeldis en hún hefur einnig sinnt fræðslu um þessi mál víða. „Það er margt sem þarf að bæta en það mætti kannski byrja á þessu almenna. Það eru viðhorf gagnvart fötluðu fólki og hvernig við komum fram við það.“

Helga segir vanta verklagsreglur og úrræði. Það sé staðreynd að fatlaðir einstaklingar verði fyrir meira ofbeldi. „Við þurfum að fara að vinna út frá því, og móta verklag um hvernig við ætlum að bregðast við þegar fatlað fólk verður fyrir ofbeldi og hvað hægt er að gera til að fyrirbyggja það.“

Fræðsla er að mati Helgu lykilatriði og þá bæði hjá fötluðum einstaklingum og þeim sem með þeim starfa. „Það þarf að auka fræðslu um ofbeldi. Fræðslu um mörk, hvenær það má segja nei og hvað sé ofbeldi. Stundum veit fólk ekki að það er að verða fyrir ofbeldi.“

Það reynist oft erfiðara fyrir fatlað fólk að segja frá verði það fyrir ofbeldi. „Það gerir veruleikann oft flóknari fyrir fatlað fólk að sumir verða fyrir valdbeitingu, kúgun og niðurlægingu í daglegu lífi. Það er vant því að þurfa að láta alls konar yfir sig ganga og það er kannski það helsta sem við þyrftum að einbeita okkur að því að breyta. Hafa þjónustuna þannig að fólk fái meira um hana að segja og fái raunveruleg tækifæri til að taka þátt í samfélaginu á sínum forsendum,“ segir hún.

Að sögn Helgu hefur umræðan um ofbeldi gegn fötluðu fólki opnast á undanförnum árum en að hennar mati þarf að efla vitundarvakningu í samfélaginu. „Svona er þetta og hvernig ætlum við að tækla það? Nú þurfum við að fara að bregðast við, búa í veruleikanum og hætta að ýta þessu á undan okkur eða gera lítið úr því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×