Sport

Þarf að vinna í rúm 35 þúsund ár til að ná sömu upphæð og Mayweather

Arnar Björnsson skrifar
Floyd Mayweather Jr.
Floyd Mayweather Jr. vísir/getty
Floyd Mayweather og Manny Pacquiao mætast í hnefaleikabardaga í Las Vegas aðfaranótt sunnudags.

Faðir Mayweather vill að strákurinn leggi keppnishanskana á hilluna.   

„Það getur allt gerst í hringnum“, segir sá gamli. „Þegar þú ert orðinn svona ríkur er engin ástæða til að taka óþarfa áhættu“.

Mayweather yngri gerði á sínum tíma sex bardaga samning við Showtime fyrirtækið og eftir bardagann um helgina á hann einn bardaga eftir.  

Mayweather hefur unnið alla 47 bardaga sína, þar af 26 með rothöggi, á 19 ára ferli sem atvinnumaður.   

Áður en Mayweather varð atvinnumaður tapaði hann fyrir búlgörskum hnefaleikamanni, Serafim Todorov á Olympíuleikunum í Atlanta 1996, búlgarinn vann þá á stigum.  

Úrslitin þóttu umdeild, margir töldu að Bandaríkjamaðurinn hefði átt sigurinn skilið.

Todorov keppti um gullið við Tælendinginn, Somluck Kamsing, en beið þar lægri hlut.  Eftir ósigurinn segist Todorov í viðtali við CNN hafa drekkt sorgum sínum í áfengi.

Hann býr í Búlgaríu og lífið hefur ekki leikið við hann.  Todorov glímir við þunglyndi og hætti í hnefaleikum 2003.

Floyd Mayweather fær 300 milljónir dollara fyrir bardagann og það tæki Serafim Todorov rúm 35 þúsund ár til að ná þeirri upphæð.  Nú vonar hann að Mayweather vinni Pacquiao um helgina.  

Hann segist þá geta ornað sér við þá hugsun að vera sá síðast sem vann Mayweather í hnefaleikahringnum.  Bardaginn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport, aðfaranótt sunnudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×