Handbolti

Þarf að borga þeim til að horfa á HM í handbolta?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki óalgeng sjón á íþróttakappleik í Katar.
Ekki óalgeng sjón á íþróttakappleik í Katar. Vísir/Getty
Íþróttayfirvöld í Katar hafa enn eina ferðina verið ásökuð um að borga innfluttum verkamönnum fyrir að mæta á kappleiki svo vellir og íþróttahallir virðist ekki vera tómir.

Í frétt Guardian segir að um 150 verkamenn hafi fengið borgað fyrir að mæta á opna katarska mótið í strandblaki í nóvember.

Á vefsíðu Alþjóðastrandblakssambandsins segir að mótið hafi fengið fólk til að mæta á völlinn, en í rauninni voru flestir áhorfendurnir verkamenn frá Gana, Kenía, Nepal og fleiri löndum.

Þeir vinna allir sem rútu- og leigubílstjórar fyrir ríkisfyrirtækið sem rekur almenningssamgöngur í landinu. Verkamennirnir segjast hafa mætt fyrir peninginn – ekki strandblakið.

Frönsku leikmennirnir Edouard Rowlandson og Youssef Krou voru að vinna leikinn um þriðja sætið þegar verkamennirnir mættu allt í einu og sætin fóru að fyllast. Þeir sögðu þetta hafa verið sérstakt, en betra en að spila fyrir framan tómt áhorfendasvæði.

Þetta er ekkert nýtt hjá Katarmönnum. Í skoðanakönnun sem birtist í janúar, gerð af skipulags- og tölfræðinefnd ríkisins, sagði meirihluti 1.079 manna úrtaksins að áhorfendur sem fá greitt fyrir að mæta fá alvöru stuðningsmenn til að vera heima.

Fram kom í könnuninni að tveir þriðju af íbúum Katar fara ekki á knattspyrnuleiki í deildarkeppninni þar í landi vegna þessara stuðningsmanna sem fá borgað fyrir að mæta.

Upphæðirnar eru ekki alltaf þær sömu. Þegar strandblakið var í gangi í síðasta mánuði fengu öryggisverðir og skrifstofudrengir frá Kenía 680 krónur fyrir að mæta.

Margir verkamenn segjast reglulega fá boð um að mæta á kappleiki til að fylla hallirnar. Þeir fá um 680 krónur fyrir að mæta á knattspyrnuleiki, en samkvæmt frétt Guardian sagðist einn verkamaður fá 1.700 krónur fyrir að mæta á handboltaleiki.

Heimsmeistaramótið í handbolta fer fram í Katar í janúar þar sem strákarnir okkar verða á meðal þátttökuþjóða.

Hallirnar þrjár sem keppt verður í taka frá 5.000-15.000 manns í sæti og er alls ekki ólíklegt að verkamönnum í landinu verði borgað fyrir að mæta og fylla hallirnar.

Meðan á strandblakmótinu stóð sáust verkamennirnir nýta frítt þráðlaust net á staðnum til hins ýtrasta og voru meira að skoða símann sinn en að fylgjast með því sem gerðist á sandinum. Þeir virtu vallarþulinn ekki viðlits þegar hann hvatti þá til að klappa í takt við lagið Get Lucky með Pharrell.

Þetta stemmir ekki alveg við orð Aphrodite Moschoudi, yfirmanns nefndarinnar hjá Katar sem sækist eftir því að halda heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum árið 2019.

„Í Katar er mikil ástríða fyrir íþróttum. Það snýst allt um íþróttir í landinu,“ sagði hann, en Katar hefur tryggt sér mörg stór mót í mörgum greinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×