Innlent

Þakklát fyrir skilninginn - frumvarp um íslenskan ríkisborgararétt kom á óvart

Maria Amelie segir tímann í Moskvu hafa verið sér erfiðan. Fréttirnar af frumvarpi um íslenskan ríkisborgararétt hafi komið henni ánægjulega á óvart. Myndina tók norskur kærasti hennar nýverið á kaffihúsi í Moskvu. Mynd/Eivind Trædal
Maria Amelie segir tímann í Moskvu hafa verið sér erfiðan. Fréttirnar af frumvarpi um íslenskan ríkisborgararétt hafi komið henni ánægjulega á óvart. Myndina tók norskur kærasti hennar nýverið á kaffihúsi í Moskvu. Mynd/Eivind Trædal

„Ég er bara föst hérna í Moskvu," segir Maria Amelie, unga rússneska konan sem var rekin frá Noregi í lok janúar eftir að hafa búið þar án dvalarleyfis frá barnsaldri. Hún segir tímann í Moskvu hafa verið sér erfiðan, en fréttirnar af því að tveir íslenskir þingmenn hafi lagt það til að veita henni íslenskan ríkisborgararétt hafi komið sér ánægjulega á óvart.

„Það er gott að hugsa til þess að einhver sýni þessu skilning. Ég veit reyndar ekki hvort það getur orðið neitt úr þessu en mér þykir vænt um þetta," sagði hún í símtali við Fréttablaðið.

Í Moskvu býr hún nú ásamt norskum kærasta sínum, Eivind Trædal. Þau hyggjast nota tímann til að skrifa um reynslu sína.

Hún er búin að fá rússnesk persónuskilríki en bíður nú eftir rússnesku vegabréfi, sem afgreitt verður eftir nokkrar vikur. Hún hefur einnig sótt um dvalarleyfi í Noregi, en óvissa er um afgreiðslu þess og má búast við að það taki nokkra mánuði að fá niðurstöðu.

„Stjórnvöld hafa nefnt þann möguleika að setja á hana tímabundið ferðabann til Noregs, en nú er verið að breyta reglunum um ferðabann og það gæti leyst málið fyrir hana," segir Brynjulf Risnes, lögmaður hennar. „Svo virðist sem mál hennar hafi leitt í ljós að reglurnar eru of ósveigjanlegar."

Þegar hún fær rússneska vegabréfið í hendur getur hún ferðast hvert sem hugurinn kýs. Hún segist vel geta hugsað sér að koma til Íslands, að minnsta kosti tímabundið, en hugur hennar stendur fyrst og fremst til þess að flytja til Noregs. „Í Noregi þarf ég hins vegar að bíða í sjö ár eftir því að geta fengið ríkisborgararétt. Þessi níu ár sem ég hef búið í Noregi verða ekki talin með. Þau gilda ekki neitt."

Í bréfi, sem hún ritaði íslenskum fjölmiðlum fyrir helgi, segist hún þakklát Íslendingum fyrir að hafa sýnt máli hennar áhuga. Henni sé hlýtt til Íslendinga síðan hún bjó með Nóru, íslenskri vinkonu sinni, á námsárunum í Þrándheimi.

Hún vakti í haust athygli á málum ólöglegra innflytjenda í Noregi með því að skrifa bók um reynslu sína, en vakti um leið athygli stjórnvalda á sjálfri sér.

„Ég skrifaði bókina í þeirri von að hún myndi breyta einhverju. Ég hélt að stjórnin yrði mér þakklát fyrir að segja frá vandanum, sem hefur bara vaxið, en í staðinn var ég handtekin, og það er virkilega sárt."- gb











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×