Skoðun

Það vilja allir að börnin þeirra hafi góða grunnskólakennara en...

Gunnhildur Óskarsdóttir skrifar
Það vilja allir að börnin þeirra hafi góða grunnskólakennara en það eru fáir sem hvetja börnin sín til að fara í grunnskólakennaranám. Þetta er dagsatt en hvernig stendur á þessu? Jú svörin sem fást við þessari spurningu eru gjarnan eitthvað á þessa leið: Kennarastarfið er svo illa launað; Það er svo erfitt; Kennaranámið er alltof langt; Hver heldurðu að leggi á sig 5 ára háskólanám fyrir þessi laun?

Á sama tíma finnst okkur afar mikilvægt að börnin okkar hafi góða kennara. Kennara sem eru áhugasamir um starfið sitt og hugsi vel um börnin okkar þannig að þau fái að njóta sín í skólanum, hvert og eitt þeirra á sínum forsendum. Kennari barnanna okkar þarf líka að hafa góða þekkingu á inntaki námsgreina og leiðum í kennslu, byggja upp ríkulegt námsumhverfi og skapa góðan bekkjaranda þannig að börnunum líði vel í skólanum. Hann þarf að vera hlýr og glaður, áhugasamur og fróður og ýmislegt fleira mætti taka til.

Í ákveðnum hverfum borgarinnar plönuðu pör jafnvel barneignir sem miðuðu við að ákveðnir kennarar eða kennarateymi myndu kenna börnunum í 1. bekk grunnskólans, eða a.m.k. reiknuðu út strax og ljóst var að von væri á barni hver eða hverjir væru líklegir til að kenna barninu. Foreldrunum fannst það skipta máli því góðir kennarar eru gulls ígildi og geta skipt sköpum fyrir einstaklinginn og haft áhrif á hvaða stefnu hann tekur í lífinu.

Ég var sjálf 9 eða 10 ára þegar ég ákvað að verða grunnskólakennari. Það sem hafði áhrif á mig voru kennararnir mínir sem voru góðar og traustar fyrirmyndir. Ég naut mín í starfi sem grunnskólakennari og sem kennari kennaranema í Kennaraháskólanum og síðar Menntavísindasviði HÍ. Ég hef aldrei séð eftir því að hafa valið þennan mikilvæga starfsvettvang sem hefur verið í senn gefandi og ánægjulegur en einnig oft krefjandi. Það er ósköp eðlilegt því kennarastarfið er starf sem krefst mikillar fagmennsku og reynir á þekkingu, færni og skilning á nemandanum og nemendahópnum og einnig á námsefninu og að koma því til skila þannig að það veki áhuga nemenda.

Ef við viljum að börnin okkar fái góða vel menntaða kennara verðum við sem samfélag að taka höndum saman og endurskoða afstöðu okkar til kennaramenntunar og til kennarastarfsins. Við þurfum að efla virðingu fyrir kennurum sem vel menntaðri fagstétt. Við verðum að fá fleiri nemendur í grunnskólakennaranám, en umsækjendum í grunnskólakennaranám hefur fækkað mjög mikið síðustu ár og ef fer sem horfir stefnir í kennaraskort í grunnskólum landsins á næstu árum og áratugum. Hvað gerum við þá? Framtíð barnanna okkar og samfélagsins alls er í húfi.

Höfundur er deildarforseti Kennaradeildar Háskóla Íslands




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×