Menning

Það verður smá gaul í kvöld

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Ég er á ágætis siglingu og er bara mjög sáttur,“ segir Ólafur Kjartan.
„Ég er á ágætis siglingu og er bara mjög sáttur,“ segir Ólafur Kjartan. Vísir/Ernir
Ef maður getur sungið Rigoletto sem missir alltaf dóttur sína á hverri einustu sýningu þá á maður að komast í gegnum þetta,“ segir Ólafur Kjartan Sigurðarson barítón um ljóðaflokkinn Kindertotenlieder eftir Gustav Mahler sem hann syngur í kvöld með sinfóníunni. Það eru fimm ljóð sem fjalla um dauða barna.

Hann segir flutninginn krefjandi. „En þetta eru ljúfsár ljóð og áhrifamikil tónlist sem gaman er að fást við þó efnið sé ekkert léttmeti.“

Ólafur Kjartan býr í Saarbrücken í Þýskalandi, rétt við landamæri Frakklands og Þýskalands, þar sem hann hefur verið með samning við óperuna síðan 2008.

„Ég er enn með annan fótinn við óperuhúsið í Saarbrücken, syng þar tvær uppsetningar á ári þannig að við höldum enn heimili þar í útjaðri borgarinnar sem er okkar fasti punktur.“



Hann kveðst hafa átt annríkt undanfarin ár og vera þéttbókaður til 2018.

„Ég er á ágætis siglingu og er bara mjög sáttur. Þó eru alltaf smá göt í dagskránni og stundum detta atriði út því það gerast alls konar hlutir í þessum bilaða bransa. Það var til dæmis að detta út ferð til Mexíkó sem ég átti að fara í á mánudaginn að syngja í tveimur sýningum á Carmen. Maður lendir í alls konar vitleysu. En það verður smá gaul í kvöld.“

Það er vikustopp hjá söngvaranum á landinu.

„Við hjónin komum heim um síðustu helgi ásamt sextán ára dóttur okkar og barnabarni og förum þrjú út á sunnudag, litli guttinn verður skilinn eftir hjá mömmu og pabba. Tvö eldri börnin okkar búa hér. Sonurinn er söngvari en lætur það ekki duga heldur er á öðru ári í lögfræði í háskólanum. Hann vildi læra fleiri lög! Eldri dóttir okkar er í Háskóla Íslands í viðskiptafræði, það var eitthvað sem togaði þessi blessuð börn heim til Íslands.“

Foreldrar Ólafs Kjartans, Ásgerður Ólafsdóttir og Sigurður Rúnar Jónsson, hafa búið í Saarbrücken í rúm þrjú ár. „Við búum í gamalli lestarstöð langt úti í skógi og pabbi og mamma eru á jarðhæðinni,“ segir Ólafur Kjartan. „Við höfum það ágætt saman í sveitinni.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×