Lífið

Það var súkkulaði í steinunum á fjallinu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Ef maður er í góðum fötum þá skiptir veðrið ekki öllu máli.“
„Ef maður er í góðum fötum þá skiptir veðrið ekki öllu máli.“ Vísir/GVA
Þegar Dögg Magnúsdóttir var lítil fannst henni rosalega erfitt að ganga á fjöll. En eitt sinn fann hún súkkulaði í steinum í fjallgöngu og það dró hana áfram. Nú er hún ellefu ára og nýtur gönguferða. Labbaði Laugaveginn í sumar.

Hvernig kom það til að þú fékkst fjallabakteríu Dögg? „Ég fór í aðventuferð Ferðafélags barnanna og kynntist því hvernig félagið vinnur og mér fannst þetta svo skemmtilegt við mamma ákváðum að fara í gönguferð með þeim.“

Manstu eftir fyrstu göngunni sem reyndi á þig? „Já, þegar ég var lítil fannst mér rosalega erfitt að ganga á fjöll. Frænka mín á Ísafirði var alltaf að reyna að plata mig upp á fjöll og eitt skiptið fór ég með henni upp í Naustahvilft en ég var svo þreytt og ég vildi alltaf vera að stoppa. En þá kom í ljós að það var súkkulaði í steinunum á fjallinu aðeins ofar svo ég hélt áfram. Eftir þetta kallaði ég fjallið súkkulaðifjall en þegar ég var eldri komst ég að því að frændi minn hafði alltaf labbað aðeins á undan og falið súkkulaðið.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við gönguferðir? „Að kynnast nýju fólki, að skoða íslensku náttúruna sem mér finnst rosalega falleg og að vera stolt af sjálfri mér þegar gangan er búin.“

Hver er fallegasta leiðin sem þú hefur gengið? „Það er Laugavegurinn sem er gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur, þar eru svo fallegir litir og landslagið er bara svo fallegt.“

Hefurðu farið mikið á fjöll í sumar? "Aðallega þessa löngu göngu yfir Laugaveginn en líka einhver fjöll. Í fyrra gengum við gamla Kjalveg og árið þar áður fór ég Leggjabrjót.“

Hefurðu þurft að vaða yfir ár? „Já, og þær voru alveg svakalega kaldar.“

Hefurðu lent í vondu veðri?„Ég hef yfirleitt verið rosalega heppin með veður. Ég gekk samt á Helgafell í sumar í roki og rigningu. En ef maður er í góðum fötum þá skiptir veðrið ekki öllu máli.“

Hefurðu einhver ráð fyrir þá sem langar í göngur en finnst erfitt að koma sér af stað? „Ef þér finnst erfitt að ganga og átt samt góða vini sem vilja ganga með þér þá spjallið þið bara saman á leiðinni og þá gleymir þú þér og gangan verður ekki erfið heldur skemmtileg.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×