Lífið

Það jólalegasta sem til er

Menning skrifar
Helga í Tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi þar sem hún kennir meðal annars.
Helga í Tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi þar sem hún kennir meðal annars. Vísir/Eyþór
Tónlistin skipar svo háan sess í jólaundirbúningi þjóðarinnar og Jólakonsertinn hans Corellis sem verður fluttur í dag spilar inn jólin á alveg einstakan hátt. Ég held að bæði mér og krökkunum finnist hann vera það jólalegasta sem til er,“ segir Helga Þórarinsdóttir, stjórnandi tónleika í Bókasafni Seltjarnarness sem hefjast klukkan fimm í dag.

Hún tekur fram að flytjendurnir séu úr Tónskóla Sigursveins við Engjateiginn en ekki úr Tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi, því þar séu blásararnir svo ungir enn.

„Krakkarnir sem koma fram í dag eru á menntaskólaaldri og ég er búin að þekkja þá í nokkur ár. Þeir eru átta talsins og eru hluti af Strengjasveit Tónskóla Sigursveins sem ég fór með til Ameríku núna í haust. Við eigum vinahljómsveit í Fíladelfíu sem við vorum að heimsækja og þetta var frábær ferð. Það eru nítján í sveitinni, við erum búin að bralla margt saman. Þetta er dásamlegur hópur og í honum ríkir alveg sérstaklega mikil vinátta og eindrægni.

Nú voru bara margir svo uppteknir að þeir gátu ekki verið með, enda eru jólatónleikar í skólanum í kvöld og það eru í raun bara mestu töffararnir sem treysta sér til að spila á báðum tónleikunum.“

Helga varð fyrir alvarlegu slysi fyrir nokkrum árum og varð að leggja víóluleik á hilluna en kennir bæði við Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi og Tónskóla Sigursveins á Engjateigi. Hún kveðst lánsöm að geta starfað við tónlistina enn og segir sérstaklega gaman að vinna með ungu fólki.

Aftur að efnisskrá tónleika dagsins. „Það er yndislegt fyrir okkur sem erum klassískt innstillt að prógrammið okkar er alveg sérstaklega jólalegt,“ segir Helga og nefnir nokkur hefðbundin lög, bæði íslensk og útlend, Nóttin var sú ágæt ein, Hvít jól og fleira fallegt sem eflaust kemur gestum í hátíðarskap.

„Ég held við séum komin nógu nálægt hinum helgu jólum til að þora að spila Heims um ból. Mér finnst ekki hægt að gera það öllu fyrr. Þannig er það líka með Jólakonsert Corellis, hann er extra jólalegur.“

Tónleikarnir eru hluti af samstarfsverkefni Bókasafns Seltjarnarness og Tónlistarskóla Seltjarnarness undir heitinu Tónstafir. Aðgangur er ókeypis.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. desember 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×