Menning

Það er orðið glæpsamlegt að vera ekki fullkomin

Magnús Guðmundsson skrifar
Bjarni Snæbjörnsson og Alexander Dantes Erlendsson í hlutverkum sínum í verkinu Núnó og Júnía hjá Leikfélagi Akureyrar.
Bjarni Snæbjörnsson og Alexander Dantes Erlendsson í hlutverkum sínum í verkinu Núnó og Júnía hjá Leikfélagi Akureyrar.
Leikfélag Akureyrar er að verða hundrað ára og pressan er sett á þig? „Já, þegar þú segir það svona, en ég verð að játa að ég hafði ekki hugsað alla leið, áttaði mig bara á þessu þegar ég var að lesa yfir leikskrána í gærkvöldi,“ segir Sara Martí Guðmundsdóttir leikstjóri, annar af tveimur höfundum verksins Núnó og Júnía sem verður frumsýnt í Hofi á laugardaginn. Verkið er jafnframt 322. sviðsetning Leikfélags Akureyrar sem var stofnað þann 19. apríl árið 1917. Sara hlær yfir pressunni og bætir við að það sé nú bara gaman að vera treyst til góðra verka á þessum stóru tímamótum Leikfélagsins.

Á síðasta leikári setti Sara upp barna- og fjölskyldusýninguna Pílu Pínu hjá Leikfélaginu og sú sýning fékk góða dóma og gekk vel. Sara segir að velgengni þeirrar sýningar hafi svo markað upphafið að því sem hún er að takast á við núna. „Eftir velgengni Pílu Pínu þá hafði Jón Páll, leikhússtjóri LA, samband og spurði hvort ég hefði áhuga á því að leikstýra aftur á þessu leikári fyrir norðan. Við fórum að skoða hin og þessi verk til þess að fara með á fjalirnar en það var alltaf eitthvert vesen með þau. Þannig að við Sigrún Huld Skúladóttir, sem skrifaði með mér leikgerðina að Pílu Pínu, komum bara með hugmynd að verki sem Jón Páll kveikti strax á. Í framhaldinu fórum við á fullt að skrifa síðasta sumar og vorum að því langt inn í haustið.“

Sara Martí Guðmundsdóttir,leikstýrir Núnó og Júníu.Mynd/Samantha West
Afburðafólkið

En hvernig verk er Núnó og Júnía? „Já, ég ætla að reyna að halda þessu einföldu sem er reyndar frekar erfitt, en í stuttu máli þá er þetta framtíðarspennuleikrit fyrir alla fjölskylduna. Verkið gerist í veröld sem heitir Kald­ónía og þar stendur fólk frammi fyrir því að tíu árum áður kom plága yfir samfélagið sem kallast Þokan og veldur því að fólk verður ósýnilegt. Yfirvöld tóku til þess ráðs, til þess að reyna að hamla útbreiðslu, að allir sem smitast eru fluttir inn í dal sem kallast Þokudalurinn. Eina fólkið sem virðist ekki smitast af Þokunni er það sem geta talist afburðafólk. Þannig að ef maður ætlar að sleppa við að fá Þokuna og verða ósýnilegur er ekkert annað að gera en að lifa hvern einasta mánuð eins og það væri meistaramánuður. Bara alla helvítis daga, þannig að það er ekkert grín, því annars áttu á hættu að fá Þokuna og að vera skutlað inn í Þokudal til þess að vera þar um aldur og ævi þar til þú hverfur.

Þetta er veröldin sem við stillum upp en í upphafi verksins er afreksmaðurinn Núnó að fá stöðu sendiherra Kaldóníu og hann er svona eins og Íþróttaálfurinn þar á bæ. Núnó er boðberi metnaðar og gaurinn sem hvetur alla áfram en daginn eftir að hann tekur við þessari mikilvægu stöðu þá vaknar hann upp við það að önnur höndin er orðin ósýnileg, hann er sem sagt kominn með Þokuna. Það er bara eins og að Íþróttaálfurinn fengi sykursýki tvö eða einhvern viðlíka lífsstílssjúkdóm. Það gengur ekki þar sem hann er þarna rétt við toppinn á tilverunni heldur ákveður hann að leyna þessu og reyna að komast að rót vandans.“

Öll ófullkomin

Sara bendir á að það megi því eiginlega segja að Núnó og Júnía sé eins konar dystópískt verk fyrir alla fjölskylduna. „Þetta eru auðvitað ömurlegar aðstæður en þetta er engu að síður pressa sem við setjum flest á okkur alla daga. Börnin okkar búa meira að segja við miklu meiri pressu en mín kynslóð ólst upp við þannig að við þurfum auðvitað ekkert að vera hissa á því að allur tíundi bekkurinn sýni kvíðaeinkenni. Þetta er heimurinn sem við höfum skapað okkur sjálfum og börnunum okkar. Við lifum við fáránlega pressu frá degi til dags og okkur Sigrúnu Huld langaði til þess að taka þetta fyrir í leikhúsinu. Nýta fantasíuna til þess að skoða samfélagið.“

Sara hefur orð á því að þessi samfélagslega pressa virðist því miður vera að aukast ef eitthvað er. „Samfélagsmiðlarnir og þessi sífelldi samanburður á milli fólks veldur gríðarlegu álagi. Það er orðið alveg glæpsamlegt að vera ófullkomin eða ekki í einhverri staðlaðri mynd, en þó erum við það öll ef að er gáð.“

Miklir töfrar

Að setja upp heila framtíðarveröld á leiksviði er væntanlega flókið og erfitt verkefni og Sara tekur undir að það sé „brjálæðislega erfitt. En við erum inni á stóra sviðinu í Hamraborg og Hof er gott hús. En það að láta fólk hverfa, smátt smátt, er auðvitað ekki það einfaldasta sem maður gerir í leikhúsinu en með mjög mikilli og góðri samvinnu á milli ljósa, sviðsmyndar, búninga og hreinlega allra þá hefst þetta. En þetta er mikið leikhús, brjálæðislega sjónrænt, með miklum töfrum. Svo erum við líka með frábæra tónlist eftir Stefán Örn Gunnlaugsson sem á eflaust eftir að heilla marga.

Það er líka gaman að vera þarna með tvo unga leikara, þau Alexander Dantes Erlendsson og Dominique Gyðu Sigrúnardóttur, sem eru bæði að stíga sín fyrstu skref í atvinnuleikhúsi og með þeim er svo Bjarni Snæbjörnsson sem útskrifaðist reyndar úr skólanum með mér á sínum tíma. En við erum líka með fimmtán aukaleikara og þau búa að miklu leyti til þennan heim fyrir okkur.

Heim sem ég vona að Akureyringar og helst allir landsmenn komi og sjái í leikhúsinu á næstunni. Ég er viss um að fólk á eftir að hafa gaman af því að koma til okkar og eftir sýninguna er gott að velta henni fyrir sér og ræða um það að við erum í raun fullkomin í ófullkomleika okkar.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×