Skoðun

Það er leikur að læra

Bryndís Jónsdóttir skrifar
Enn eitt sumarið er liðið og skólinn hafinn að nýju. Sumir eru að stíga sín fyrstu skref í grunnskólanum, aðrir orðnir öllu vanir. Við foreldrar getum gert ýmislegt til að létta litlum fótum fyrstu skrefin og senda börnin okkar af stað inn í skólaárið með jákvæðum hætti.

Hér skal tæpt á því helsta:

1. Göngum með yngstu börnunum í skólann fyrstu dagana. Sýnum þeim hvar öruggast er að ganga og kennum þeim að fara yfir umferðargötur á réttum stað.

2. Hvetjum öll börn til að ganga eða hjóla í skólann þegar veður leyfir. Bæði er það heilsusamlegt og færri bílar við skólana á morgnana þýða meira öryggi fyrir börnin okkar.

3. Ræðum um skólabyrjunina við börnin okkar með jákvæðni að leiðar­ljósi, tölum fallega um kennarann, skólastarfið og bekkjarfélagana.

4. Leggjum okkur fram um að kynnast bekkjarfélögum barnsins og foreldrum þeirra. Þannig er miklu auðveldara að viðhalda góðum samskiptum og koma í veg fyrir einelti.

5. Sýnum skólastarfinu og námi barnanna okkar áhuga og virðingu. Látum börnin vita að það sem þau eru að fást við sé bæði merkilegt og mikilvægt.

6. Látum heyra í okkur þegar vel er gert, munum að hrósa bæði nemendum og starfsfólki.

7. Gefum kost á okkur í samstarf við skólann. Hvort sem þú vilt vera bekkjartengiliður, taka þátt í störfum foreldrafélagins eða setjast í skólaráð þá máttu vera viss um að þátttaka þín í samstarfinu skiptir miklu máli fyrir þitt barn og öll hin börnin líka.




Skoðun

Sjá meira


×