Körfubolti

Það er eitthvert ráðleysi í gangi hjá Keflavík

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur.
Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur. Vísir/Anton
Það er krísa í Keflavík en karlalið félagsins í körfubolta hefur byrjað tímabilið mjög illa. Liðið er aðeins búið að vinna þrjá af fyrstu níu leikjum sínum í Domino’s-deildinni og situr í tíunda sæti deildarinnar.

Þann 3. nóvember síðastliðinn vann Keflavík glæsilegan sigur á Tindastóli, 101-79, en síðan hefur liðinu fallið allur ketill í eld. Það er búið að tapa fjórum leikjum í röð og frammistaðan í þessum leikjum hefur yfirhöfuð verið mjög léleg.

„Ég veit ekki hvað er í gangi í Keflavík. Það virðist vera eitthvert ráðleysi í gangi,“ segir körfuboltagoðsögnin Teitur Örlygsson en hann er hálfhissa á þessu gengi Keflavíkurliðsins.

Dregið af leikmönnum

„Liðið virðist ekki vera líkt sjálfu sér þessa dagana. Mér finnst vera einkennandi hvað það hefur dregið af mörgum leikmönnum þarna. Ég veit ekki hvort það er sjálfstraust eða hvort menn hafi hreinlega ekki trú á því sem er verið að gera þarna.“

Sigurður Ingimundarson, þjálfari liðsins, varð að draga sig í hlé rétt fyrir tímabilið vegna veikinda og aðstoðarmaður hans, Hjörtur Harðarson, tók við liðinu. Sigurður var svo mættur aftur á bekkinn en í síðasta leik var hann aftur kominn upp í stúku.





Teitur Örlygsson á að baki langan og farsælan feril sem bæði leikmaður og þjálfari í úrvalsdeild karla í körfubolta og þekkir boltann vel. Vísir/Valli
Þjálfaravesen

„Í Haukaleiknum var Siggi að stýra liðinu og Hjörtur talaði svo um að hann væri kominn til baka. Svo í næsta leik sá ég að Siggi var kominn upp í stúku. Þá hætti maður alveg að skilja. Þetta getur ekki heldur verið þægilegt fyrir leikmenn liðsins,“ segir Teitur um þjálfaramálin hjá liðinu.

Ekki við Hörð að sakast

Keflavík fékk heldur betur innspýtingu er landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson gekk aftur í raðir félagsins. Það hefur engu skilað og liðið hefur tapað öllum þremur leikjunum með Hörð Axel innanborðs mjög stórt.

„Ég held að það sé ekki við Hörð Axel að sakast. Ég held að þetta sé eitthvað dýpra sem var að gerjast áður en Hössi kom til liðsins. Þeir verða bara að þjappa sér saman núna. Snúa þessu gengi við saman því það vantar ekki að það eru flottir leikmenn í liðinu.“

Keflavík spilar við Þór á Akureyri í kvöld og getur þá unnið sinn fyrsta leik í deildinni rúman mánuð.

Haukar - Keflavík Hörður Axel Vilhjálmsson Domino´s deild karla úrvalsdeild vetur 2017 karfa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×