Menning

Það er eftir Íslandi tekið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kvennakór Reykjavíkur keppti í fjórum flokkum af fimm í alþjóðlegri kórakeppni í Lloret De Mar og fékk gulleinkunn í þeim öllum.
Kvennakór Reykjavíkur keppti í fjórum flokkum af fimm í alþjóðlegri kórakeppni í Lloret De Mar og fékk gulleinkunn í þeim öllum.
„Við kepptum í kirkjutónlist, þjóðlagatónlist, poppi og katalónskri tónlist. Tókum poppflokkinn bara til gamans og urðum í 2. sæti. Árangurinn í keppninni allri fór langt fram úr okkar björtustu vonum og er stór rós í okkar hnappagat.“

Þetta segir Rósa Benediktsdóttir, hún er formaður Kvennakórs Reykjavíkur, sem tók nýlega þátt í kórakeppni í Lloret de Mar á Spáni og fékk gullviðurkenningar í öllum flokkum sem hann keppti í.

Það eru samt ekki gullverðlaun að sögn Rósu sem útskýrir hvernig fyrirkomulagið er í svona keppnum.

„Ef kór fær milli 80 og 100 stig í einhverjum flokki þá er gefin gullviðurkenning og svo raðast í sæti innan hvers flokks. Við náðum 2., 3. og 4. sæti í þremur af þessum fjórum flokkum.“ Hún segir fjölmarga kóra hafa tekið þátt, sumir þeirra hafi atvinnu af söng.

„Þetta var hörð keppni, flottir kórar frá fjórtán löndum, kvennakórar, karlakórar, blandaðir kórar, ungmennakórar og að minnsta kosti einn barnakór.

Hver kór söng sína lotu fyrir framan alþjóðadómnefnd, skipaða doktorum og prófessorum, meðal annars frá Rússlandi, Tékklandi og Íslandi.

Hörður Áskelsson, organisti Hallgrímskirkju og stjórnandi Mótettukórsins, var í dómnefndinni. Mótettukórinn hefur einn íslenskra kóra tekið þátt í þessari keppni áður og fram til þessa árs hafði hann staðið sig best allra og hlotið Grand Prix verðlaun. Það er eftir Íslandi tekið.“

Í kórnum eru 46 konur á aldrinum 30 til rúmlega sjötugs. Stjórnandi er hin ungverska Ágota Joó. Um undirleik sér Vilberg Viggósson, eiginmaður hennar.

„Ágota hefur þennan austurevrópska metnað, hún er mjög fær og vakti mikla athygli úti fyrir öguð vinnubrögð,“ segir Rósa. „Svo reyndar sungum við líka á tónleikum í dómkirkjunni í Barselóna. Vorum einn þriggja kóra sem voru valdir til að taka þátt í þeim tónleikum.“



 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. september 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×