Innlent

TF-LÍF leitaði að Birnu Brjánsdóttur

Birgir Olgeirsson skrifar
TF-LÍF þyrla Landhelgisgæslunnar.
TF-LÍF þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, leitaði nú undir kvöld að Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið síðan á aðfaranótt laugardag. Þyrlan fór í loftið rétt fyrir klukkan fimm og var meðal annars flogið yfir Hafnarfjarðarhöfn. Síðan var stefnan tekin með fram ströndinni, frá Straumsvík að Vogum á Vatnsleysuströnd. Þá var einnig flogið suður að Höskuldarvöllum og Keili. Um klukkan hálf sjö var leit hætt og haldið inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli.

Sérhæft björgunarsveitarfólk er enn við leit á Strandarheiði. Um það bil 30 manns leita þar með fram vegarslóðum búið lýsingu og sérfræðiþekkingu á leit við erfiðar aðstæður.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir fjöldi ábendinga berast lögreglu vegna hvarfs Birnu og í raun sé verið að leita að nánast öllu sem getur talist óvenjulegt á Strandarheiði og gæti mögulega hjálpað til við að upplýsa málið.

Notast er við leitarhunda á Strandarheiði en búast má við björgunarsveitarfólk verði að störfum fram eftir kvöldi, eða þegar verkefni dagsins er lokið.

Hann segir mikið hafa mætt á björgunarsveitarfólki undanfarna daga vegna leitarinnar en um sé að ræða þaulreynt fólk sem hefur komið að mörgum erfiðum leitum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×