Fótbolti

Tévez skoraði beint úr aukaspyrnu í toppslagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Carlos Tévez er markahæstur í A-deildinni á Ítalíu.
Carlos Tévez er markahæstur í A-deildinni á Ítalíu. vísir/getty
Ítalíumeistarar Juventus halda níu stiga forskoti á Roma í toppbaráttu A-deildarinnar í fótbolta þar í landi, en liðin skildu jöfn, 1-1, í Rómarborg í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var ekki mikið fyrir augað, en í fyrsta sinn á leiktíðinni náði hvorugt liðið að skjóta boltanum á markið.

Það hafði enn ekki nokkur maður hitt markið þegar Juventus fékk aukaspyrnu á 64. mínútu, rétt fyrir utan teig. Argentínumaðurinn Carlos Tévez gerði sér á lítið fyrir og skoraði beint úr aukaspyrnunni, 1-0.

Skömmu áður hafði Vasileios Torosidis, leikmaður Roma, fengið rautt spjald og kláraði Rómarliðið því leikinn manni færri.

Carlos Tévez er þar með orðinn markahæstur í ítölsku A-deildinni, en hann er búinn að skora 15 mörk, einu marki meira en samlandi sinn Mauro Icari hjá Inter.

Argentínumenn eru einnig í næstu sætum markalistans á Ítalíu. Paulo Dybala, leikmaður Palermo, og Gonzalo Higuaín, leikmaður Napoli, eru búnir að skora tólf mörk eins og Jéremy Menez hjá AC Milan.

Með sigri hefði Juventus farið langt með að afgreiða Roma úr titilbaráttunni, en Seydou Keita jafnaði metin fyrir tíu leikmenn Roma með skalla af stuttu færi á 78. mínútu. Lokatölur, 1-1.

Juventus, sem hefur unnið deildina undanfarin þrjú ár, stefnir hraðbyri að fjórða meistaratitlinum í röð. Það er með 58 stig í efsta sæti deildarinnar, níu stigum á undan Roma. Napoli er í þriðja sætinu með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×